Mynd vikunnar



Þessi mynd er úr safni hjónanna séra
Péturs Þ. Ingjaldssonar (d.1.6.1996) og
Dómhildar Jónsdóttur (d.18.10.2012).
Á myndinni sér heim að Höskuldsstöðum í Vindhælishreppi. Bærinn og gamla kirkjan til hægri eru bæði horfin en nýja kirkjan, sem byrjað er að mála, var vígð 13. mars  1963 og er enn í notkun. Á hlaðinu hjá Höskuldsstöðum sér í prestsbílinn sem var af Austin gerð. Myndin var tekin 13. júlí 1959. Á sínum tíma var á Höskuldsstöðum höfuðkirkja og prestsetur en kirkjan á Spákonufelli var útkirkja eða annexía (reyndar frá kirkjunni á Hofi)  þannig að presturinn á Höskuldsstöðum þjónaði í Spákonufellskirkju öfugt við það sem er í dag. Séra Pétur Ingjaldsson var settur prestur á Höskuldsstöðum en prestsetrið var ekki flutt til Skagastrandar fyrr en árið 1963 þegar séra Pétur og Dómhildur kona hans keyptu Höfða á Skagaströnd og fluttu þangað. Tilfærslan frá Höskuldsstöðum á Skagaströnd hafði reyndar verið samþykkt 10 árum áður eða 1953 eftir að málið hafði verið að velkjast í kerfinu allt frá árinu 1936. ( heimild "Ágrip af sögu Spákonufells- og Hólaneskirkna 1300 - 2012" eftir  Lárus Ægi Guðmundsson