Árnes, safn

Húsið er elsta hús á Skagaströnd og var byggt árið 1899 af Fritz H. Berndsen kaupmanni sem starfaði á Skagaströnd og átti þar verslun. Á árunum 1932 til 1935 átti Carl Berndsen, sonur Fritz, húsið. Frá árinu 1935 bjuggu í því Guðrún Teitsdóttir ljósmóðir og Árni Kristófersson. Upp úr 1980 eignuðust erfingjar þeirra húsið og síðan hefur enginn búið þar.

Endurgerð hússins Sveitarfélagið Skagaströnd keypti húsið 2007 og samþykkti að gera húsið upp. Verkið hófst árið 2008 og var unnið eftir tillögum Jons Nordstein arkitekts. Byggingarmeistari við endurgerðina var Helgi Gunnarsson, trésmíðameistari á Skagaströnd. Húsið var formlega tekið í notkun 29. júni 2009. Sjálft húsið er 34 ferm. að stærð og viðbygging (bíslag) 7,4 ferm, samtals 41.4 ferm.

Árnes er fallega staðsett á svæði sem sveitarstjórn hefur skilgreint sem safnasvæði. Í næsta nágrenni er Bjarmanes, gamalt verslunar- og skólahús sem byggt var árið 1912. Sveitarfélagið lét gera húsið upp og var það tekið í notkun árið 2004 eftir miklar endurbætur. Þessi tvö hús mynda skemmtilega heild og eru áþreifanleg tenging við liðna tíð.

Árnes er lifandi dæmi um aðstöðu og lifnaðarhætti á fyrri hluta 20. aldar. Húsið er dæmigert timburhús frá þessum tíma og hið eina þessarar gerðar sem mögulegt var að varðveita á staðnum. Gildi þess er mikið, ekki síst fyrir það að innviðir eru að stærstum hluta upprunalegir. Húsið er búið húsgögnum og munum úr Muna- og minjasafni Skagastrandar, lánshlutum og jafnvel búnaði úr eigu fyrri íbúa hússins. Leitast hefur verið við að hafa húsið að innan líkast því sem íslensk heimili voru í byrjun 20. aldar. Gamlar myndir frá því um aldamótin 1900 sýna ágætlega hvernig húsið var í upphafi. Hins vegar var smám saman byggt við það og um leið breyttist útlit þess. Við endurbygginguna voru seinni tíma viðbyggingar fjarlægðar og reynt að nálgast hinn upprunalegum stíl eins og kostur var. Nefna má til dæmis láréttan kúlupanil á útveggjum og gluggum með sex rúðum. Þá var grunnur hússins endurhlaðinn og steyptur þannig að hleðslan kæmi skírt fram.

Innanhúss var skipulagi haldið óbreyttu. Útveggir voru einangraðir og klæddir, ýmist með panil í upprunalegri mynd eða með gifsplötum sem síðan voru veggfóðraðar. Miðað var við að panilklæðningar og timburgólf væru eins og á fyrri hluta 20. aldar. Skorsteinninn var hins vegar steyptur upp að nýju. Sveitarfélagið auglýsti fyrri hluta árs 2009 eftir hugmyndum meðal íbúa staðarins um rekstur Árness eftir að endurgerð þess lyki. Í framhaldi af því var Menningarfélaginu Spákonuarfi á Skagaströnd leigt húsið.

Spákonuarfur sér um sýningarhald í Árnesi. Nánari upplýsingar um Spákonuarf eru hér.