Spákonuarfur

Menningarfélagið Spákonuarfur á Skagaströnd opnaði Spákonuhof sitt þann 30. Júní 2011. Spákonuhofið er liður í sögu og menningartengdri ferðaþjónustu þar sem efniviðurinn er sóttur í söguna og er þar unnið með Þórdísi spákonu, fyrsta nafngreinda íbúa Skagastrandar, sem uppi var á seinni hluta 10. aldar. Þórdís var kvenskörungur mikill og stóð jafnfætis helstu höfðingjum. Hennar er víða getið í Íslendingasögum, bæði lof og last, en kunnust er hún líklega fyrir að hafa fóstrað Þorvald víðförla, fyrsta íslenska kristniboðann.

Í Spákonuhofinu er sögusýning með leiðsögn um Þórdísi spákonu og er miðpunktur sýningarinnar afsteypa af sögupersónunni framan við hús sitt. Eins er ævi hennar rakin á myndrænan hátt með refli sem prýðir veggi hofsins. Refillinn samanstendur af 20 vatnslitamyndum og texta eftir Sigurjón Jóhannsson myndlistarmann og leikmyndahöfund. Söguna er svo einnig hægt að upplifa með upptöku af leikriti um Þórdísi spákonu, sem Spákonuarfur setti á svið haustið 2008 og er til sýnis í Spákonuhofinu.

Börn geta átt góðar stundir með sögupúslum og fleiru skemmtilegu sem leynist í kistum Þórdísar. Þá fá gestir að kynnast spádómum og spáaðferðum bæði að fornu og nýju. Að lokum ber að geta þess að í hofinu er að finna fjóra spáklefa sem hver og einn er innréttaður á sinn hátt allt eftir því hvers eðlis spáð er og þar geta gestir látið spá fyrir sér á margháttaðan máta. Hefur þessi spáþjónusta mælst mjög svo vel fyrir og er afar vinsæl.

Í Spákonuhofinu er á skemmtilegan hátt blandað saman sögu spákonunnar og hún tengd við spár og spádóma. Hönnun og uppsetning Spákonuhofsins var unnin í samstarfi við Ernst Backman og leikmunagerð Sögusafnsins í Perlunni .

Menningarfélagið Spákonuarfur

Spákonuarfur, sem saman stendur af fólki sem hefur áhuga á menningu og sögu sem tengjast Skagaströnd ,hefur frá árinu 2007 unnið að ýmsum verkefnum. Þar má m.a. nefna ritun sögu Þórdísar sem kom út í nóvember 2012, uppsetningu leikrits byggðu á fyrrnefndri sögu og var sett upp haustið 2008. Þórdísargöngur á Spákonufell þar sem boðið er uppá leiðsögn og meðal annars er sagt frá sögu Þórdísar. En viðamesta verkefnið hefur verið að koma upp Spákonuhofinu á Skagaströnd.