Sorphreinsun og endurvinnsla

Endurvinnslustöð á Skagaströnd

Heimilisfang: Vallarbraut 2, 545 Skagaströnd

Sími: 452 2958
Netfang umsjónarmanns: gudmundurgud@terra.is

Opnunartímar á endurvinnslustöð - gámaplani: 

Þriðjudaga kl. 14.00 – 17.00

Laugardaga kl. 13.00 – 16.00

Sorphirða hjá sveitarfélaginu er með þeim hætti að tvær tunnur eru við hvert heimili. Önnur tunnan er fyrir almennt heimilissorp og hin fyrir endurvinnsluefni. Tunnurnar eru tæmdar á þriggja vikna fresti allt árið um kring samkvæmt sorphirðudagatali.

Terra annast sorphirðuna fyrir sveitarfélagið og býður einnig fyrirtækjum og rekstraraðilum ýmsar lausnir varðandi sorphirðu.

Urðunarstaður er í Stekkjarvík í Austur-Húnavatnssýslu. Þar er tekið á móti öllum almennum úrgangi. Urðunarstaðurinn er rekinn af Norðurá bs sem er byggðasamlag sveitarfélaga í Skagafirði og Austur Húnavatnssýslu en tekur á móti úrgangi af svæðinu frá Öxarfirði í austri til Hrútafjarðar í vestri.

Um endurvinnslustöðina:

Með endurvinnslustöðinni er markmið að veita íbúum, fyrirtækjum og stofnunum sveitarfélagsins hagkvæma, nútímalega og umhverfisvæna sorphirðuþjónustu og tækifæri til flokkunar og endurvinnslu. Jafnframt var lögð áhersla á að auka skilning og vitund íbúa, stofnana og fyrirtækja um mikilvægi flokkunar, endurvinnslu og endurnýtingar, þannig að dregið verði úr urðun og sóun en stuðlað að bættu umhverfi í sveitarfélaginu.

Á gámastæðinu og endurvinnslustöðinni er góð aðstaða til að taka á móti flokkuðum og óflokkuðum úrgangi þar á meðal spilliefnum. Svæðið fullnægir jafnframt öllum kröfum heilbrigðisyfirvalda um mengunarvarnir, meðferð spilliefna, frárennsli og fleiri þátta sem varða starfsemina.

Endurvinnsla – forsendur góðrar flokkunar

Til þess að flokkun á úrgangi til endurvinnslu gangi sem best og verði sem hagkvæmust er nauðsynlegt að aðgreina vel þau efni sem á að koma til endurnýtingar eða endurvinnslu. Eftirfarandi er yfirlit yfir þá flokkunarmöguleika sem eru í boði á Skagaströnd og helstu atriði sem snerta hvern flokk.

Endurvinnslustöð – gámastæði

Á gámastöð eru nokkrir mismunandi gámar auk móttöku á endurvinnsluefni og spillefnum.

 • Allur garðaúrgangur fer í sérstakan gám. Þar eru settar afklippur af trjágróðri, jarðefni; Mold, sandur, grjót og múrbrot.
 • Sérstakur timburgámur er fyrir timbur af öllu tagi bæði litað og ólitað, spónaplötur og húsgögn
 • Sérstakir gámar eru fyrir almennt sorp sem ekki fer til endurvinnslu.
 • Brotajárnsgámur er fyrir allar gerðir málma. Spilliefnum er safnað í sérstök geymslukör. Þar eru settir rafgeymar, rafhlöður, illgresiseitur, skordýraeitur, olíur, leysiefni, sýrur, basar, framköllunarvökvar, málning, úðabrúsar, lakk, hitamælar. Spilliefni, lög og reglugerðir
 • Rafmagnstækjum og búnaði og öllu raflagnaefni er safnað í sérstök kör til endurvinnslu.
 • Rúllubaggaplasti er safnað sérstaklega á gámastöðinni.
 • Á endurvinnslustöðinni er móttaka fyrir ónýta bíla og greitt skilagjald fyrir afhendingu þeirra.
 • Á endurvinnslustöðinni er tekið á móti öllu endurvinnsluefni sem skilgreint er að megi fara í endurvinnslutunnur.

Endurvinnslutunnur við heimili:

Í endurvinnslutunnu fara eftirfarandi efnisflokkar:

 • Dagblöð og tímarit, má setja beint í tunnu eða í glærum plastpokum
 • Pappír (hvítur), bæklingar, umslög og ruslpóstur. Má setja laust í tunnu eða í glærum plastpokum
 • Pappi, bæði sléttur pappi ss. morgunkornspakkar og bylgjupappi. Má setja laust í tunnu.
 • Mjólkurfernur, rjómafernur og aðrar drykkjarfernur úr pappírs-/pappaefnum. Þarf að skola matarleifar úr og gott að brjóta fernur saman til að minnka umfang í tunnu og í pökkun til endurvinnslu.
 • Önnur drykkjarílát nema glerílát. Ekkert gler má setja í endurvinnslutunnur vegna slysahættu við flokkun. Má vera laust í tunnu.
 • Málmumbúðir, lok af glerkrukkum, niðursuðudósir og aðrir málmar sem hafa verið til heimilisnota. Mikilvægt að skola matarleifar úr ílátum. Má setja laust í tunnu eða í glærum plastpokum.
 • Plast af öllu tagi, brúsa, plastfilmur, plastdósir, plastpokar, frauðplast, plast utan af áleggi og plastöskjur. Best ef skilað í glærum plastpokum en stærri hlutir mega vera lausir í tunnu.

 Fatnaður

Móttökugámur er við hús Rauði krossins að Vallarbraut 4 (tengill: https://www.raudikrossinn.is/deildir/nordurland/skagastrandardeild/ )
 
Flöskur og dósir
Móttaka fyrir flöskur, dósir og önnur ílát með skilagjaldi er hjá Björgunarsveitinni Strönd. Þar er opið öll þriðjudagskvöld. kl. 20 – 22. (tengill: https://is-is.facebook.com/bjorgunarsveitin.strond )


 Stefna sveitarstjórnar í úrgangsmálum

Samþykkt á fundi sveitarstjórnar 30. janúar 2019 

Sveitarstjórn styður þá meginstefnu sem mótuð hefur verið á síðustu árin að líta beri á allt efni sem auðlindir sem nauðsynlegt sé að nýta sem best. Í samræmi við það hefur verið litið á úrgangsmál sem málaflokk sem væri að þróast frá því að snúast um lausnir á úrgangsvanda yfir í umræðu um bætta auðlindanýtingu í anda hringrásarhagkerfisins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti 2. desember 2015 sérstakan „Hringrásarhagkerfispakka“ með það að markmiði að stuðla að framleiðslu og nýtingu umhverfisvænnar vöru, draga úr myndun úrgangs, auka endurvinnslu og nýta orku og aðföng með sjálfbærum hætti. Þessi samþykkt inniheldur m.a. tillögur um breytta úrgangslöggjöf með sérstakri áherslu á að draga úr urðun og auka endurnotkun og endurvinnslu. Sveitarstjórn gerir ráð fyrir að þessar fyrirhuguðu breytingar verði innleiddar hér á landi á næstu árum í samræmi við EES-samninginn og því sé rétt og verði innan fárra ára skylt að hlíta þeim ákvæðum sem samþykktin og markmið hennar taka til

Meðal þeirra markmiða í úrgangsmálum sem fram koma í tillögum hringrásarhagkerfisins um breytta úrgangslöggjöf má nefna eftirfarandi:

 • Árið 2030 verði:
  • Endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs  65%
  • Endurvinnsluhlutfall umbúðaúrgangs 75%
  • Að hámarki 10% heimilisúrgangs ráðstafað til urðunar.
 • Bann verði sett við urðun flokkaðs úrgangs
 • Hagrænum hvötum verði beitt til að sporna gegn urðun
 • Kerfi sem miða að endurheimt og endurvinnslu verði studd sérstaklega til að sinna hlutverki sínu.

 Í tillögunum er m.a. lagt til að sú skylda verði lögð á aðildarríkin að auk pappírs, málma, plasts og glers verði lífrænum úrgangi safnað sérstaklega.

Til að ná þessum markmiðum þurfa einstaklingar, heimili, fyrirtæki og opinberir aðilar að standa saman að breyttum aðferðum og leiðum við meðhöndlun úrgangs. Sveitarstjórn mun því beita sér fyrir aukinni fræðslu um úrgangsmál og leggja áherslu á aukna flokkun og bætta meðferð alls úrgangs með það að markmiði að nýta öll aðföng með eins sjálfbærum hætti og kostur er.