Ársreikningur sveitarfélagsins jákvæður og skilar 73,6 mkr. betri afkomu en áætlað var

Ársreikningur sveitarfélagsins var afgreiddur á fundi sveitarstjórnar þann 4. maí sl.

Rekstrarniðurstaða samstæðu A - og B -hluta á árinu 2022 var jákvæð um kr. 629 þús. samanborið við kr. 73,0 millj. neikvæða afkomu skv. áætlun með viðaukum. Afkoma samstæðunnar var því kr. 73,6 millj. betri en áætlun með viðaukum gerði ráð fyrir. Samtals var nettó niðurstaða þeirra viðauka sem gerðir voru kr. 18,5 millj. til lækkunar á rekstrarafkomu ársins.

Helstu fjárfestingar ársins voru: Fráveitukerfi kr. 63,1 millj. nettó að teknu tilliti til kr. 15,4 millj. ríkisframlags. Grunnskóli endurbætur kr. 44,6 millj. Túnbraut 1-3 skrifstofuhúsnæði endurbætur kr. 32,0 millj. Gatnaframkvæmdir og malbikun kr. 20,1 millj. Slökkvistöð endurbætur kr. 14,7 millj. Hafnarmannvirki kr. 11,0 millj. nettó að teknu tilliti til kr. 2,3 millj. ríkisframlags.

Handbært fé samstæðu A og B lækkar um kr. 156,9 millj. milli áranna 2021 og 2022. Sveitarfélagið tók engin ný lán á árinu en nýtti rekstrarfé og laust fé í fjárfestingar. Veltufjárhlutfall samstæðunnar er áfram hátt en það lækkar þó nokkuð milli ára og er 3,6 í árslok 2022 samanborið við 5,7 í ársbyrjun

Skuldir við lánastofnanir lækka um kr. 16,1 millj. milli ára en þær voru kr. 110,3 millj. í árslok samanborið við kr. 126,4 millj. í ársbyrjun. Langtímaskuldir sveitarfélagsins eru allar vegna félagslegra íbúða. Tvö skuldabréf voru gerð upp á árinu vegna eigna sem voru seldar á árinu 2022. Engin lántaka var gerð á árinu 2022 hjá samstæðunni.

Skuldahlutfall samstæðu sveitarfélagsins sem reiknað er í samræmi við reglur um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga var -1% í árslok 2022 en heimilt er að draga veltufjármuni og fleiri liði frá skuldum við útreikning á hlutfallinu.