Jólagjöf til Unicef frá krökkunum í Höfðaskóla

Mynd fengin að láni frá vefsíðu Höfðaskóla
Mynd fengin að láni frá vefsíðu Höfðaskóla

Frábæru krakkarnir okkar í Höfðaskóla ákváðu að halda litlu jólin með nýju sniði þetta árið. Í frétt á vef skólans segir m.a. :

" Í mörg ár hefur tíðkast hjá nemendum og starfsfólki Höfðaskóla á Skagaströnd að skiptast á gjöfum á litlu jólunum. Allir koma þá með eina gjöf í púkk þar sem dregið er um hvaða pakka hver og einn fær. Í ár var gerð breyting og var óskað eftir að hvert heimili og hver starfsmaður kæmu með 1000 krónur til þess að safna fyrir vatnsdælu hjá Unicef. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og bættust meira að segja nokkrar ömmur og nokkrir afar í hópinn og lögðu málefninu lið. 

Í dag hittust nemendur og starfsfólk skólans í stofu unglingastigs og keyptu sannar gjafir, en samtals söfnuðust 90.500 krónur. Fyrir það gátum við keypt fimm hlý ullarteppi, þrjá fótbolta, þrjá ofurhetjupakka sem innihalda bóluefni, kælibox og hnetumauk og eina vatnsdælu. 

Við viljum þakka öllum þeim sem lögðu til pening í söfnunina, án ykkar hefði þetta ekki orðið að veruleika. Það er dýrmætt að sjá samfélagið okkar standa saman í svona söfnun, hún kennir börnunum okkar allra svo margt."

Þetta er frábært framtak sem stjórnendum og nemendum ber að hrósa fyrir. Þið eruð til fyrirmyndar.

Jólakveðja

Sveitarstjóri