Molar mánaðarins: Halla María, konan í Slökkviliði Skagastrandar

Halla María nýkomin úr sínu fyrsta útkalli með Slökkviliði Skagastrandar
Halla María nýkomin úr sínu fyrsta útkalli með Slökkviliði Skagastrandar

Það dró til tíðinda þegar kona gekk til liðs við Slökkvilið Skagastrandar síðasta haust en ansi mörg ár eru liðin síðan kona var hluti af teyminu. 

Í þessu innslagi af Molum mánaðarins fáum við að kynnast henni Höllu Maríu Þórðardóttur, íbúa og kjarnakonu á Skagaströnd. Hún er eins og er eina konan í Slökkviliði Skagastrandar en eins og glöggir lesendur fá að kynnast hér á eftir er henni ýmislegt til lista lagt sem við samfélagið á Skagaströnd njótum góðs af. 

Til að byrja með er kannski eðlilegast að fá að vita smá um þig Halla, hver ertu og hvernig endaðiru á Skagaströnd?

Ég heiti Halla María Þórðardóttir, er 36 ára og kem úr Garðabænum. Ég á þrjú börn með manninum mínum Magnúsi Líndal. Áhugamál mín eru hestamennska, baka, ferðast og læra. Ég er mikið fyrir það að gera margt í einu og láta gott af mér leiða, er nýjungagjörn og er ekki oft aðgerðarlaus. Elska að prófa eitthvað nýtt og setja smá pressu á sjálfa mig.

Ég hef alla tíð verið forfallin hestakona og dýra vinur. Byrjaði í reiðskóla 6. ára og stofnaði síðan minn eiginn reiðskóla 25 ára. Ég hef alltaf haft það lífsmottó að maður getur gert allt sem manni langar til og maður á að láta drauma sína rætast. Þannig að ég hef lært ansi margt í gegnum tíðina og er alls ekki hætt.

Eftir grunnskólann fór ég í fatahönnun, síðan lá leiðin í hárgreiðsluna því ég ætlaði alltaf að vera eins og Dísa frænka sem er hárgreiðslukona og hestakona. Þá eftir það fór ég á Hóla í Hjaltadal og útskrifaðist ég þaðan sem hestafræðingur, leiðbeinandi og tamningarkona. Hestamennskan og hárgreiðslan var mitt starf í mörg ár, en mig langaði að halda áfram að læra eitthvað og fór í kennaranám og útskrifaðist ég sem kennari í maí 2022.

Við Magnús erum búinn að vera saman í 13 ár og höfum á þessum árum að mestu búið í bænum. Það hafði oft komið til tals að prófa að flytja hingað en varð aldrei af því ekki fyrr en núna fyrir rúmum tveimur árum. Þá sendi ég póst á skólastjórann um hvort væri laus staða í skólanum fyrir mig og ég væri til í að koma ef svo væri og við gætum fengið hér húsnæði til leigu. Allt í einu vorum við flutt á Skagaströnd með allt liðið okkar, öll dýrin og reiðskólann og erum við hér enn. Nú í dag erum við búinn að kaupa okkur hús og erum mjög ánægð.

Þú hefur greinilega lagt ýmsilegt fyrir þig á lífsleiðinni og fær í að er virðist flestan sjó. Hvað er það sem þú gerir í dag?
Í dag starfa ég í Höfðaskóla sem umsjónarkennari á miðstigi. Á sumrinn er ég með Reiðskólann minn Eðalhesta og alltaf eitthvað í hárgreiðslunni líka. Ásamt því er ég í hlutastarfi í Slökkviliði Skagastrandar, þannig það er alltaf nóg að gera.

Talandi um það afhverju langaði þig að ganga til liðs við Slökkvilið Skagastrandar?

Þetta starf hefur heillað mig en ég hef samt aldrei látið slag standa að sækja um. Ég og bróðir minn höfum rætt þetta stundum því hann hefur verið að spá að sækja um í slökkviliðinu. Síðan fyrir tilviljun hafði Jonni slökkviliðssjóri samband við mig og spurði mig hvort ég vildi ekki ganga í slökkviliðið. Ég var ótrúlega stolt að fá þetta boð, sérstaklega þar sem að þetta starf hefur hingað til ekki verið mikið kvennastarf og fannst mér gaman að hann teldi mig hæfa í það. Ég tók mér smá tíma og hugsaði mig um en ég fann fljótt að mig langaði að vera með og tók starfinu og sé ég ekki eftir því.

Nú ertu búin að fara í eitt útkall þó að þú hafir verið stutt í liðinu – hvernig líkar þér?

Mér líkar mjög vel og vona ég að ég geti látið gott af mér leiða í þessu starfi í framtíðinni. Að fara í fyrsta útkallið var mjög lærdómsríkt og áhugavert.

Hvernig er að vera eina konan í liðinu?

Að vera eina konan truflar mig í rauninni ekki neitt og er bara skemmtileg áskorun, nema kannski að ég þarf mun minni föt og stígvél en þeir, það var frekar fyndið að sjá stígvélin niður á stöð þar sem að ég hefði passað í mínum skóm í stígvélin og þau væru samt of stór.

En ég hugsa alltaf að ég get gert allt sem að mig langar til hvort sem að ég sé kona eða ekki. Þetta starf á ekkert að vera frekar karla en kvenna starf og ég held að strákarnir taki bara vel í það að ég sé með.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart?

Ekki ennþá held ég. Ég kann vel við svona mikla fjölbreytni í starfi en samt svo mikið skipulag því ég vill kunna og vita til hvers er ætlast af mér. Fljótlega eftir að ég byrjaði í liðinu fór ég strax á námskeið 1. og er núna á leið á námskeið 2. hjá Brunamálaskólanum og er það mjög lærdómsríkt. En þetta er auðvitað hlutastarf þannig það er ekki mikið um að vera, sem betur fer, en ég hlakka til að takast á við komandi áskoranir.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?

Ég held að við þurfum að hætta að huga störf út frá kynjum, frekar hvað hentar hverjum fyrir sig. Mér finnst frábært að hafa verið beðin um að vera með í slökkviliðinu og er ég mjög þakklát og stolt af því að hafa verið beðin um það.

 

Frábær skilaboð frá Höllu inn í helgina. Ég þakka henni kærlega fyrir að gefa sér tíma til að svara nokkrum spurningum og leyfa okkur að kynnast sér betur.

Alexandra Jóhannesdóttir

sveitarstjóri