Molar mánaðarsins: Jólaströnd

Emilía Ýr Dagsdóttir, Helena Mara Velemir og Þórey Fjóla Aradóttir.
Emilía Ýr Dagsdóttir, Helena Mara Velemir og Þórey Fjóla Aradóttir.

Það er mikilvægt fyrir samfélag eins og okkar að vekja athygli á því góða sem gert er og tala um allt það jákvæða sem á sér stað í litla bænum okkar sem á það til að gleymast í amstri dagsins.

Í því augnamiði ætlum við að stefna að því að birta reglulega fréttir undir yfirskriftinni "Molar mánaðarins" þar sem við segjum frá uppbyggilegum og skemmtilegum fréttum frá Skagaströnd. 

Fyrstu viðmælendur sveitarstjóra eru dugnaðarforkarnir Emilía Ýr Dagsdóttir, Helena Mara Velemir og Þórey Fjóla Aradóttir sem kalla sig (í það minnsta tímabundið) hópinn Jólaströnd. 

Það fór líklega ekki framhjá íbúum þegar glæsilegt jóladagatal var gefið út í aðdraganda jólanna þar sem búið var að útlista hina ýmsu viðburði í tengslum aðventuna og jólin. Það voru þessar þrjár ungu konur hér í bæ sem riðu á vaðið og komu því í framkvæmd.

Fyrsta og kannski augljósasta spurninginn er einfaldlega afhverju ykkur datt þetta í hug og hvernig þetta æxlaðist?

Þetta byrjaði nú bara sem klukkutíma spjall á milli okkar vinkvennana. Okkur hefur allar langað að gera eitthvað í tengslum við jólin og vorum uppfullar af hugmyndum um hvað væri hægt að gera. Þegar við byrjuðum að "brainstorma" þá gátum við bara ekki stoppað en við erum allar mikil jólabörn og eigum það sameiginlegt að þykja hátíðirnar svo skemmtilegar. Eftir nokkur löng samtöl um hvað væri raunverulega hægt að framkvæma og hvað væru draumórar varð úr að setja saman jóladagatal! 

Það var einmitt mjög gaman að sjá árlega viðburði tekna saman með ýmsum skemmtilegum nýjungum í bland: 

Já jólamarkaður skapar ákveðna stemmningu, kakóvagninn við tendrun jólatrésins heppnaðist mjög vel og við efndum til viðurkenningar fyrir jólalegasta húsið á Skagaströnd og erum ekki frá því að það hafi borið á auknum skreytingum í bænum þetta árið.

Það er ótrúlega dýrmætt fyrir samfélag eins og okkar að hafa drífandi fólk innan okkar raða - en hvað hefur ykkur fundist skemmtilegst við þetta?

Þær eru sammála um að það hafi verið skemmtilegast að fá jákvæð viðbrögð frá íbúum og ótrúlega gaman þegar fólk lætur í sér heyra og segi frá því þegar það er ánægt með framtak eins og þetta. Það hvetur mann áfram.

Jólamarkaðurinn í Fellsborg fór fram úr björtustu vonum bæði í sölu og mætingu. Við vissum ekkert við hverju við ættum að búast og áttum alveg eins von á því að mætingin yrði dræm enda margir í ekki heima í aðdraganda jólanna. Emilía segir að einn stærsti höfuðverkurinn hafi verið "vöffluáætlunin" en á jólamarkaðnum var vöfflusala sem gekk svona glimrandi vel að það seldist allt upp og hráefnið kláraðist. Þórey nefnir að það hafi verið mjög mikil sala hjá þeim söluaðilum sem tóku þátt í markaðnum en margir seldu nánast allt sem þeir komu með á markaðinn. Það hafi margir fengið fyrirspurnir í kjölfar markaðarins varðandi frekari sölu á vörum. Þetta er allt mjög hvetjandi og sýnir að það þarf oft ekki mikið til að gera góða hluti. 

Öll fyrirtæki á Skagaströnd tóku góðan þátt og eru þær sérstaklega ánægðar með það. Það var góð mæting á sérstaka jólaopnun í Kjörbúðinni og á Vivu hárgreiðslustofu. Þær hafa orð á því að þó að eitthvað af fólki sem mætti á viðburði dagatalsins þá hafi meginþorri fólksins verið heimamenn. Það er svo gaman að sjá heimafólk styðja við fyrirtækin á staðnum. Það er mikið sem hægt er að gera ef maður stendur saman í heimabyggð og styður við þá starfsemi sem er til staðar. 

En hvað er svo framundan? Ætlið þið að halda áfram og mögulega útvíkka þetta eitthvað eða eruð þið sáttar í jólaálfahlutverkinu eins og er?

Þær hlæja nú bara að sveitarstjóra við þessa spurningu en segja það ekki útilokað. Það væri mjög gaman ef þetta myndi stækka ár frá ári. Það væri gaman að sjá fleiri taka sig saman og til samfélagsins. Þetta gaf góða raun og meiri líkur en minni að þetta verði gert aftur. Helena segir að þær séu miklar stemmningskonur heilt yfir og það sé alltaf hægt að finna tilefni til að gera eitthvað skemmtilegt fyrir samfélagið en tíminn verði að leiða það í ljós. 

Eruð þið með einhver skilaboð eða eitthvað sem þið viljið segja að lokum?

Við erum þakklátar fyrir það hversu vel hefur verið tekið í þetta uppátæki. Þó það sé alltaf einhver sem hefur eitthvað neikvætt að segja þá þýðir ekki að láta það stoppa sig. Einstaklingsframtakið er svo dýrmætt. Ef það er einhver þarna úti sem að er að hugsa um að koma einhverju í verk þá er bara að drífa sig af stað! Það er svo mikilvægt að gefa til baka til samfélagsins á svona litlum en góðum stöðum eins og okkar.

Ég þakka þessum kjarnakonum kærlega fyrir spjallið og fyrir þeirra framlag til samfélagsins. Vonandi ber okkur gæfa til þess að þær haldi áfram sínum góðu verkum!

Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri.