Mynd vikunnar

Ljósmynd: Muna- og minjasafn Skagastrandar. Ljósmyndari óþekktur
Ljósmynd: Muna- og minjasafn Skagastrandar. Ljósmyndari óþekktur

Þessi mynd var tekin 1947 af horfnu húsi, Viðvík, en það stóð ca þar sem er Strandgata 8 er í dag. Húsið var reist á sjöunda áratug 19. aldar en í því var um árabil rekið veitinga- og gistihús fram undir lok 19. aldarinnar. Það var Ólafur Jónsson "vert" frá Helgavatni í Vatnsdal sem rak veitingahúsið ásamt konu sinni Valgerði Narfadóttur. Sagt er að Ólafur hafi verið vel af manni og ekki vílað margt fyrir sér m.a. við að halda uppi lögum og reglu hjá gestum Viðvíkur. Þau hjón áttu sex börn sem mörg hver urðu nafnkunn á Íslandi. Má þar nefna Pétur A. Ólafsson sem var um tíma allt í öllu á Patreksfirði og Láru Ólafsdóttur sem þekkt er úr bók Þórbergs Þórðarsonar: Bréf til Láru. Eftir að Ólafur vert hafði rekið gistihúsið Viðvík í allnokkur ár flutti hann til Akureyrar og gerðist veitingamaður á Oddeyrinni þar. Í fjörunni neðan við Viðvík stóð stór steinn - Semingssteinn. Nafn sitt hlaut steinninn af því að þar fannst sjórekið lík Semings Semingssonar. Semingur hafði setið að sumbli á veitingahúsinu en verið vikið út þaðan vegna óláta. Brást hann illa við og sagðist mundi koma bráðum aftur. Hann reið svo inn að Blöndu þar sem hann drukknaði 20. júlí 1867. Semingssteinn stendur nú á grasbletti austan við Hafnarhúsið með áfastri plötu sem segir sögu steinsins. (Myndin er í eigu Muna- og Minjasafns Skagastrandar. Gefandi: Jóhann Pétursson Lækjarbakka á Skagaströnd.)