Mynd vikunnar

Ljósmynd: Ólafur Bernódusson
Ljósmynd: Ólafur Bernódusson

Myndin var tekin seint í desember 2007. Á henni bendir Árni Ólafur Sigurðsson, skipstjóri á Arnari HU 1, á hluta af lunningu sem kom upp í trollinu út af Þistilfirði. Klussið á myndinni er óvenjulegt svo þegar myndin birtist í Morgunblaðinu kannaðist Halldór B. Nellett, yfirmaður hjá Landhelgisgæslunni, strax við hvaðan lunningarbúturinn var kominn. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Halldór m.a.: "Ég var uppvaskari og messagutti hjá Guðmundi Kjærnested skipherra um borð í varðskipinu Ægi,“ sagði Halldór. „Ég var nýbyrjaður til sjós og mátulega sjóveikur. Við vorum að reyna klippingu á Þistilfjarðargrunninu eða þar nálægt þegar breski togarinn Aldershot keyrði á stjórnborðssíðuna hjá okkur og hreinsaði alla lunninguna af.“ Þetta, sem Halldór lýsir, gerðist að morgni 18. október 1972 í miðju þorskastríði vegna útfærslu landhelginnar í 50 mílur. Lunningin hafði því legið í 35 ár í sjónum þegar Arnar dró það af hafsbotninum. (heimild: Morgunblaðið 4. janúar 2008).

Ljósmyndasafn