"Ég finn svo sem engan mun á mér frá í gær", svarar Jóhanna  spurningunni um hvernig það sé að vera orðin 100 ára.  Jóhanna, sem býr á dvalarheimilinu Sæborg, er heilsuhraust og hefur  alltaf verið. Sem dæmi um það má segja sögu af því þegar hún fór í  augnaðgerð á níræðisaldri. Hjúkrunarkonan sem var að undirbúa Jóhönnu  fyrir aðgerðina spurði hana hvaða lyf hún tæki. Jóhanna sagðist ekki vera  að taka nein lyf og hefði aldrei gert það. Hjúkkan þráspurði Jóhönnu um  þetta og nefndi hinar ýmsu lyfjategundir sem Jóhanna þvertók fyrir að nota.  Þá gafst hjúkkan upp og kallaði Gísla, son Jóhönnu,  á eintal og bað hann  að segja sér hvaða lyf mamma hans tæki;"... því hún mamma þín vill ekki  segja mér það".   Gísli sagði konunni að þetta væri bara rétt hjá mömmu sinni hún tæki  engin lyf og hefði aldrei gert.  Jóhanna fæddist á Fjalli í þáverandi Vindhælishreppi 15. október 1917 og  ólst þar upp. Hún giftist Angantý Jónssyni (og Guðrúnar frá Lundi - syni)  og fóru þau að búa á Mallandi á Skaga þar sem foreldrar hans bjuggu.  Þaðan fluttu þau svo að Fjalli og bjuggu þar. Þegar bærinn brann ofan  af þeim fluttu þau til Skagastrandar. Þau eignuðust þrjár dætur, tvíburana  Guðrúnu og Sigurbjörgu (d.10.9.1997) og Bylgju áður en þau skildu.  Jóhanna flutti síðan suður á land, bjó þar í nokkur ár og eignaðist eina  dóttur í viðbót, Dagný Hannesdóttur.  Heim kom hún svo aftur til Skagastrandar þar sem hún hefur átt heima  alla tíð síðan. Hér eignaðist hún sitt yngsta barn, drenginn Gísla Snorrason.  Jóhanna vann verkakvennavinnu alla tíð eftir heimkomuna, lengst af í  frystihúsinu. Þar stóð hún við að snyrta og pakka fiski þar til frystihúsinu  var lokað. Þá var Jóhanna farin að nálgast áttrætt. Jóhanna minnist vinnunnar  í frystihúsinu með gleði . "Ég væri þarna enn ef þeir hefðu ekki lokað",  sagði þessi kankvísa og hressa samferðakona okkar á 100 ára  afmælisdegi sínum.   |