Nýjar bifreiðar Slökkviliðs Skagastrandar og Björgunarsveitarinnar Strandar

Slökkvilið Skagastrandar og Björgunarsveitin Strönd festu á haustdögum kaup á nýjum bifreiðum sem hafa verið teknar í notkun.

Nýji slökkvibíllinn var keyptur frá Feuerwehrtechnik Berlin og er af gerðinni MAN TGM, 2020 árgerð. Bíllinn er hinn glæsilegasti með 3000 lítra vatnstanki og 300 lítra froðutanki ásamt því að vera búin öllum helsta búnaði sem nauðsynlegur er til slökkvistarfa. Bíllinn leysir af hólmi gamla slökkvibíl liðsins sem er Mercedez Benz árgerð 1977 svo um mikilvæga endurnýjun er að ræða. Slökkvilið Skagastrandar er rekið af Sveitarfélaginu Skagaströnd og Skagabyggð og tók Skagabyggð þátt í kaupunum.

Björgunarsveitin Strönd fjárfesti í bifreið með styrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Bifreiðin er af gerðinni Land Cruiser 2007 árgerð sem hefur verið breytt fyrir 44" dekk. Bíllinn er búinn öllum nauðsynlegum búnaði sem þarf til leitar og björgunar.

Sveitarfélagið óskar slökkviliði og björgunarsveit innilega til hamingju með þennan áfanga sem mun auka öryggi íbúa og nýtast vel í framtíðar verkefnum á svæðinu.