Skagaströnd hlýtur styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Fuglaskoðunarhúsið verður hið glæsilegasta
Fuglaskoðunarhúsið verður hið glæsilegasta

Það er ánægjulegt að segja frá því að sveitarfélagið hlaut í dag styrk að upphæð 11,4 m.kr. úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða til áframhaldandi uppbyggingar á Spákonufellshöfða.

Sveitarfélagið fékk vorið 2022 styrk úr Framkvæmdasjóði til hönnunar og framkvæmda innan fólkvangsins, þ.e. að gera fuglaskoðunarhús, lagfæra stíga og bílastæði.

Hönnun á fuglaskoðunarhúsinu er lokið og verið er að skipuleggja framkvæmdir á sumarmánuðum 2023. Samkomulag hefur náðst við verktaka úr heimabyggð, frá Skagaströnd og Skagafirði, um framkvæmd fyrsta fasa verkefnisins og hefst smíði fuglaskoðunarhúss á næstu vikum. Húsið verður sett upp í sumar um leið og aðstæður leyfa. Húsið verður smíðað úr íslensku greni og ösp, en búið er að tryggja aðgengi að efninu frá Skógræktinni. Verkefnið er unnið í samstarfi við Umhverfisstofnun og er í samræmi við aðgerðaráætlun sveitarfélagsins sem kemur fram í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

Sá styrkur sem hlaust í úthlutun sjóðsins 2023 er vegna áframhaldandi aðgerða á Spákonufellshöfða. Aðgerðirnar fela í sér uppfærslu á fræðsluskiltum á höfðanum sem komin eru til ára sinna, að gera hjólastólafæran göngustíg frá bílastæði inn á höfðann og lítinn útsýnispall við enda þessa aðgengilega stígs. 

Mikil ánægja er með úthlutunina sem gerir sveitarfélaginu kleift að halda áfram að byggja upp sína innviði sem tengjast ferðaþjónustu og bæta aðgengi gesta að þeirri náttúruperlu sem Spákonufellshöfði er. Er Framkvæmdasjóði þakkað kærlega fyrir styrkinn en heildarframlag sjóðsins til uppbyggingar á Spákonufellshöfða nemur þá samtals 26,6 mkr.