Skagstrendingur vikunnar - Árni Ólafur Sigurðsson

Mynd Árni Sig - Um myndina segir Árni: Myndin sem fylgir er stemningsmynd sem tengist fullkomnum deg…
Mynd Árni Sig - Um myndina segir Árni: Myndin sem fylgir er stemningsmynd sem tengist fullkomnum degi hjá mér. Hún er tekin á einum slíkum degi í maí í fyrra. Þá var búið að fara í göngutúrinn, ég er pottþétt búinn að strjúka yfir einhvern bíl, Arsenal var í góðum málum, nýja grillið komið í gang og það besta af öllu að öll fjölskyldan var saman komin.

Hér fer af stað nýr og skemmtilegur liður, Skagstrendingur vikunnar, þar sem við kynnum til sögunnar íbúa Skagastrandar í stuttum og léttum viðtölum. Markmiðið er að byrja vikuna á brosi, jákvæðni og betri tengingu við fólkið í samfélaginu okkar. Fyrsti Skagstrendingur vikunnar er enginn annar en Árni Ólafur Sigurðsson, sem flestir þekkja sem Árna Sig.

1. Hver ert þú og hver er þín saga í stuttu máli – hvernig varð Skagaströnd hluti af þínu lífi?

Ég heiti Árni Ólafur og er alltaf kallaður Árni Sig. Ég er eiginmaður, faðir, afi, bróðir og vinur, fæddur og uppalinn hér á Skagaströnd. Foreldrar mínir fluttu hingað í júní árið 1949. Þau voru bæði af Ströndum, höfðu búið í tvö ár á Akranesi og ákváðu að flytja hingað í leit að betra lífi því á þessum tíma var Skagaströnd talin vera þorp í miklum vexti. Mánuði eftir flutningana fæddist ég, þann 20. júlí, og ólst upp í Þórsmörk. Síðan þá hefur Skagaströnd verið mitt heimili og ég hef ekki séð ástæðu til að búa annars staðar, enda hvar er betra en hér? Nema þegar snjórinn kemur, hann má alveg vera uppi í fjöllunum.

2. Hvað finnst þér gera Skagaströnd að góðum og heillandi stað til að búa á?

Skagaströnd er góður og heillandi staður fyrst og fremst vegna fólksins sem hér býr. Hér hefur alltaf verið gott samfélag og það er ein af ástæðunum fyrir því að mér finnst svo gott að vera hér. Ég hef oft hugsað til laganna sem hafa fylgt mér og fyrst og fremst: „Ég er kominn heim“ því þannig líður mér alltaf þegar ég kem til baka hingað, sama hvert ég hef farið, hvort sem ég hef verið á sjó eða skroppið upp úr bænum. Mér finnst líka „Hafið eða fjöllin“ eiga vel við bæinn okkar, enda er umhverfið og náttúran hér falleg. Skagaströnd er minn bær og verður alltaf minn bær.

3. Áttu þér uppáhaldsstað á Skagaströnd og af hverju?

Það er auðvitað bryggjan og hafið. Sjómennska hefur alltaf verið stór hluti af mínu lífi. Ég starfaði sem skipstjóri og stýrimaður í 45 ár og var samtals sjómaður í 51 ár, allt þar til ég hætti árið 2016. Hafið hefur fylgt mér alla tíð og bryggjan er sá staður þar sem mér líður alltaf vel. Það er líka alltaf gaman að vera á bryggjunni á sumardögum þegar smábátarnir koma í land.

4. Hvernig lítur fullkominn dagur á Skagaströnd út fyrir þér?

Fullkominn dagur á Skagaströnd fyrir mér byrjar á því að geta gengið minn daglega göngutúr í hvítalogninu, og ef þið vitið það ekki þá er hvítalognið hér ansi oft. Heimilið, fjölskyldan og góður matur skipta líka miklu máli. Fullkominn dagur væri því göngutúrinn og svo að allar dætur mínar og fjölskyldur þeirra væru á ströndinni með stefnuna á grill og samveru seinna um daginn. Það væri heldur ekki verra ef Arsenal væri með sigurleik þann dag. Áfram Arsenal!

5. Hvað í daglegu lífi hér veitir þér gleði og ró?

Það veitir mér alltaf gleði og ró að vakna með elsku Hlíf minni við hlið mér, að vera við góða heilsu og að vita að öllu fólkinu mínu líði vel.

6. Hvaða eiginleikar eða áhugamál skilgreina þig best – innan eða utan vinnu?

Síðan ég hætti að vinna hef ég átt erfitt með að vera kyrr og þarf yfirleitt að vera að gera eitthvað. Ég verð að komast í göngutúrinn minn á hverjum degi. Ég þoli ekki skítuga bíla og hef alltaf lagt mikinn metnað í að hafa bílana mína hreina og fína. Mér þykir mjög vænt um kirkjukórastarfið í samfélaginu og ég mæti alltaf þegar ég er heima. Við hjónin höfum verið dugleg að ferðast bæði innanlands og utanlands og í mörg ár vorum við með húsbíl eða hjólhýsi. Í dag förum við mjög reglulega erlendis. Ég hef líka alltaf haft mikinn áhuga á fótbolta og íþróttum almennt og fylgist vel með fréttum og veðri.

7. Er eitthvað skemmtilegt, óvænt eða sérstakt við þig sem flestir vita ekki af?

Ég tók þá ákvörðun þegar ég kom í land að ég skyldi alltaf sjá um að skúra, og hef sannarlega staðið við það. Eldhúsið er skúrað eftir hverja einustu kvöldmáltíð!

8. Hvaða manneskja, atburður eða upplifun á Skagaströnd hefur haft mótandi áhrif á þig?

Það er fyrst og fremst Sveinn Ingólfsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Skagstrendings hf., sem hafði mótandi áhrif á mig. Hann stofnaði félagið með því að fá nánast alla bæjarbúa til að trúa og treysta því að hér væri grundvöllur fyrir útgerðarfélag. Ég byrjaði fyrir alvöru sjómennskuna mína hjá honum og það var hann sem hvatti mig til að fara í Stýrimannaskólann.

Ég átti ekki pening og foreldrar mínir gátu ekki hjálpað mér fjárhagslega, því þau voru fátæk hjón. En þau gáfu mér alltaf ást og umhyggju og mig skorti í raun aldrei neitt. Ég var ungur og lifði lífinu, þannig að enginn peningur var til að mennta sig. Þá kemur Sveinn inn í myndina. Hann hafði trú á mér sem framtíðarskipstjórnarmanni og bauðst til að borga skólagjöldin í þá tvo vetur sem námið tók. Ég þyrfti ekki að greiða honum neitt til baka fyrr en ég kæmi aftur til starfa hjá honum.

Sveinn Ingólfsson gerði mér kleift að mennta mig og byggja framtíðina mína. Ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir það sem hann gerði, því ég er ekki viss um að ég hefði orðið sá maður sem ég er í dag nema fyrir hans hvatningu og góðmennsku.

9. Hvað fær þig helst til að brosa þegar þú hugsar um bæinn okkar?

Það sem fær mig helst til að brosa þegar ég hugsa um bæinn okkar er allt það góða fólk sem hér hefur verið í gegnum tíðina og hvað bærinn hefur blómstrað, bæði í blíðu og stríðu. Mér verður líka oft hugsað til þess þegar ég var lítill gutti að leika mér í höfðanum og á bryggjunni, því þær minningar eru mér enn mjög kærar.

10. Hvaða skilaboð eða ósk viltu senda til íbúa Skagastrandar núna eða til framtíðar?

Verum góð við hvert annað og tölum bæinn okkar upp, því hér er sannarlega gott að vera. Við eigum fullt af öflugu ungu fólki og ég trúi og treysti því að það eigi eftir að efla samfélagið okkar enn frekar og halda áfram að byggja upp framtíðina á Skagaströnd.

Við hjá sveitarfélaginu þökkum Skagstrendingi vikunnar kærlega fyrir að deila með okkur sinni sögu. Slík viðtöl minna okkur á styrkinn í samfélaginu okkar og hversu dýrmætt er að kynnast fólkinu sem gerir Skagaströnd að því einstaka samfélagi sem hún er. Njótið vikunnar!