Sveitarstjórn setur sér stefnu í úrgangsmálum

Stefna sveitarstjórnar í úrgangsmálum

Sveitarstjórn styður þá meginstefnu sem mótuð hefur verið á síðustu árin að líta beri á allt efni sem auðlindir sem nauðsynlegt sé að nýta sem best. Í samræmi við það hefur verið litið á úrgangsmál sem málaflokk sem væri að þróast frá því að snúast um lausnir á úrgangsvanda yfir í umræðu um bætta auðlindanýtingu í anda hringrásarhagkerfisins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti 2. desember 2015 sérstakan „Hringrásarhagkerfispakka“ með það að markmiði að stuðla að framleiðslu og nýtingu umhverfisvænnar vöru, draga úr myndun úrgangs, auka endurvinnslu og nýta orku og aðföng með sjálfbærum hætti. Þessi samþykkt inniheldur m.a. tillögur um breytta úrgangslöggjöf með sérstakri áherslu á að draga úr urðun og auka endurnotkun og endurvinnslu. Sveitarstjórn gerir ráð fyrir að þessar fyrirhuguðu breytingar verði innleiddar hér á landi á næstu árum í samræmi við EES-samninginn og því sé rétt og verði innan fárra ára skylt að hlíta þeim ákvæðum sem samþykktin og markmið hennar taka til

Meðal þeirra markmiða í úrgangsmálum sem fram koma í tillögum hringrásarhagkerfisins um breytta úrgangslöggjöf má nefna eftirfarandi:

  • Árið 2030 verði:
    • Endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs  65%
    • Endurvinnsluhlutfall umbúðaúrgangs 75%
    • Að hámarki 10% heimilisúrgangs ráðstafað til urðunar.
  • Bann verði sett við urðun flokkaðs úrgangs
  • Hagrænum hvötum verði beitt til að sporna gegn urðun
  • Kerfi sem miða að endurheimt og endurvinnslu verði studd sérstaklega til að sinna hlutverki sínu.

 Í tillögunum er m.a. lagt til að sú skylda verði lögð á aðildarríkin að auk pappírs, málma, plasts og glers verði lífrænum úrgangi safnað sérstaklega.

 Til að ná þessum markmiðum þurfa einstaklingar, heimili, fyrirtæki og opinberir aðilar að standa saman að breyttum aðferðum og leiðum við meðhöndlun úrgangs. Sveitarstjórn mun því beita sér fyrir aukinni fræðslu um úrgangsmál og leggja áherslu á aukna flokkun og bætta meðferð alls úrgangs með það að markmiði að nýta öll aðföng með eins sjálfbærum hætti og kostur er.