Yfirlýsing frá Gámaþjónustunni

 
05.12.2018
Endurvinnsla á plasti

Yfirlýsing frá Gámaþjónustunni hf vegna umfjöllunar um plast í fjölmiðlum.

Vegna umfjöllunar á þriðjudagskvöldið 4. desember í þættinum Kveik á RUV, þá vill Gámaþjónustan hf koma því á framfæri að fyrirtækið er að senda plastefni til endurvinnslu í Hollandi og Þýskalandi.  Það á við um allar starfsstöðvar Gámaþjónustunnar hér á landi.

Markaður til endurvinnslu á plasti hefur vissulega verið erfiður undanfarin ár en það er kominn aukinn kraftur í starfsemi endurvinnsluaðila fyrir plastefni í Evrópu og þessi starfsemi mun eflast á næstunni.

Allt filmuplast sem viðskiptavinir okkar safna í sérsöfnun, ólitað og litað, er baggað hjá Gámaþjónustunni í stóra bagga og sent erlendis til endurvinnslu.  Við sendum plastið til umboðsmanns í Hollandi sem sendir plastið áfram til endurvinnslu.  Plastfilma er nokkuð eftirsótt til endurvinnslu og það hafa ekki verið vandamál undanfarin misseri að afsetja plastfilmu til endurvinnslu þar sem plastfilman er notuð aftur sem plastefni.

Það eru síðan mjög margir flokkar af öðru umbúðaplasti, t.d. plastpokum, smærri plastfilmu, plastbökkum, samsettri plastfilmu (t.d. áleggsbréf), skyrdósum, stórum og litlum plastflöskum og brúsum, sem við tökum saman í einn flokk og böggum saman.  Þetta plastefni er núna sent til Þýskalands þar sem það fer í flokkun.  Gámaþjónustan er í beinu sambandi við þennan aðila sem flokkar plastefnið og hefur séð þá vinnslu sem þar fer fram.  Stór hluti af plastinu er endurunnið.  Hluti þess er ekki nothæft til endurvinnslu, t.d. vegna óhreininda eða samsetningu umbúða.  Það plast, sem ekki er hæft til endurvinnslu, fer til orkuvinnslu í brennslustöð.  Það efni nýtist til að búa til hita og rafmagn en það er kostnaðarsamara að plastið fari til orkuvinnslu en til endurvinnslu.

Það er því hagur Gámaþjónustunnar hf og viðskiptavina fyrirtækisins, að sem allra mest af plastefnum sem berast til fyrirtækisins sé af þeim gæðum að plastið sé hæft til endurvinnslu aftur í nýjar vörur.  Þar skiptir m.a. miklu máli að plastið sem safnað er sé þokkalega hreint.

Gunnar Bragason,

forstjóri.