10. bekkur - Að loknum samræmdum prófum

Að loknum samræmdum prófum 10. bekkinga, nánar tiltekið síðastliðinn þriðjudag var haldið af stað í skólaferðlag. Birkir Sigurhjartarson umsjónarkennari og foreldrarnir; Guðjón Guðjónsson og Helga Bergsdóttir voru með í för. Farið var yfir Þverárfjall með rútu, en fyrsti áningarstaður var Fjölbrautaskóli Norðurlands- vestra á Sauðárkróki. Skoðaðar voru verk- og bóknámsdeildir og heimavist, undir leiðsögn heimamanna en heimsókninni lauk með veitingum í mötuneyti skólans. Áfram var haldið til Akureyrar, en þar skelltu allir sér á skauta. Kvöldmaturinn, flatbaka mikil, var tekinn nánast á svellinu, en skautað var stíft í tvo tíma. Þá lá fyrir að finna náttstað, en hafði sá verið pantaður með fyrirvara. Um kvöldið var farið í bíó en að því loknu var sest við spjall og spil. Flestir voru sofnaðir um þrjúleitið en einhverjir höfðu með sér vökustaura og sváfu lítið fyrir vikið. Allir voru samt vaknaðir upp úr níu og flestir stungu sér í sundlaug þeirra Akureyringa sem mun vera ögn lengri en flestir Skagstrendingar eiga að venjast. En ekki dugar að næra andann, maginn vill fá sitt og var því sest við hamborgaraát á Glerártorgi. Nú, þá var komið að Verkmenntaskólanum, þar var arkað um langa ganga og verknámsdeildir skoðaðar. Vélfræði, rafiðn, listabrautir margskonar, kokka- og sjúkraliðarbrautir svo nokkuð sé nefnt. Þar sem margir voru farnir að verða þreytulegir eftir andvökunótt var ákveðið að labba út í Menntaskóla til að safna orku fyrir næsta þátt. Þegar þangað kom hittum við þar fyrir Húnavallaskóla nemendur í sömu erindagjörðum. Þar voru aftur gengnir gangar, arkað út og suður um gömul hús og ný. Mestur áhugi virtist þó vera á Fjósinu en svo er leikfimisalur þeirra Menntskælinga kallaður enda upprunalega smíðað sem fjós. Í einni skólastofunni í Gamla skólanum var öllum boðið upp á veitingar sem féllu í góðan jarðveg. Að lokum var hlaupið upp á nýju nemendagarðana í heimsókn til Skagstrendinganna sem þar hafa búið í vetur. Eftir Brynjuís var haldið af stað heim og rennt var upp að Höfðaskóla um kvöldmatarleytið á miðvikudegi. Þetta var fínt ferðalag, þar sem allir stóðu við sitt enda fengu krakkarni hrós frá bílstjóranum fyrir prúðmennsku. Helga Bergsdóttir