50 manns mættu á Drekktu betur

 

 

Þrátt fyrir slæmt veður mættu um fimmtíu manns á spurningakeppnina „Drekktu betur“ í Kántrýbæ síðasta föstudagskvöld. Hjörtur Guðbjartsson var spyrill hélt uppi fjörinu og þóttu spurningar hans afar fjölbreytilegar.

 

Bjórspurningin vafðist fyrir mörgum. Hjörtur spurði hver hlotið hefði hin bandarísku Seacology umhverfisvernarverðlaun. Einhvern veginn hafði þessi frétt farið framhjá flestum og hlutu því aðeins fjögur lið bjórglasið. Það var hins vegar hinn góðkunni grínari, fréttamaður og stjórnmálamaður Ómar Ragnarsson sem hlaut þessi verðlaun í byrjun mánaðarins en þau hafa verið veitt til þess einstaklings í heiminum sem leggur mikið af mörkum til verndunar lífríkisins.

 

Leikar fóru þannig að sigurvegarar með tuttugu og tvö stig voru þeir Magnús B. Jónsson og Sigurður Sigurðarson og var það mál manna að þeir tveir hefðu óumdeilanlega mest úrval af gangslausum upplýsingum til reiðu. Hlutu þeir bjórkassann í verðlaun.

 

Næsta keppni verður haldin 7. nóvember og verður spyrill Finnur Kristinsson, en verði hann fjarverandi mun Guðbjörg Ólafsdóttir, eiginkona hans spyrja. Þau unnu fyrstu keppnina sem haldin var í lok september síðast liðinn.

 

Meðfylgjandi myndir tók Ólafía Lárusdóttir á föstudagskvöldið.