50 milljón króna menningar- og listasjóður á Skagaströnd

Lárus Ægir Guðmundsson hefur stofnað styrktarsjóð til eflingar menningar- og listalíf á Skagaströnd og Skagabyggð. Sjóðnum er einnig ætlað að greiða styrki til þeirra sem verða fyrir slysum eða alvarlegum veikindum og þarfnast aðstoðar.

Stofnfé sjóðsins eru 50 milljónir króna og áætlað að stykir úr honum geti numið allt að 5 milljónur á ári.

Lárus Ægir er borinn og barnfæddur á Skagaströnd, rætur hans liggja þar sem hefur hann starfað mestan hluta ævi sinnar. Af þeim verkefnum sem hann hefur unnið að má nefna þessi:

·    Sveitarstjóri á Skagaströnd frá árinu 1972 til 1984

·    Framkvæmdastjóri frystihússins Hólanes frá 1984 til 1994

·    Stofnandi, eigandi fiskmarkaðarins Örva á Skagaströnd, framkvæmdastjóri hans frá 1994 til 2007

Lárus Ægir hefur sinnt fjölmörgum málum sem til framfara hafa horft á Skagaströnd. Hann keypti meðal annars í félagi við aðra gamla kaupfélagshúsið og gerði það upp. Húsið hefur að hluta til þegar verið tekið í notkun og í því eru skrifstofur Menningarráðs Norðurlands vestra og BioPol ehf.

Hann átti líka þátt í að kaupa húsið sem áður var frystihúsið Hólanes en til stendur að breyta því og finna hentuga starfsemi fyrir það.

Í síðustu viku kynnti Lárus Ægir styrktarsjóðinn með bréfi sem hann sendi til allra íbúa á Skagaströnd og Skagabyggð. Bréfið fer hér á eftir:

Ég – Lárus Ægir Guðmundsson – stofnaði í upphafi þessa árs styrktarsjóð sem ber nafnið Minningarsjóður um hjónin frá Garði og Vindhæli. Hann er stofnaður til minningar um afa mína og ömmur í föður- og móðurætt, þau Helgu Þorbergsdóttur og Jóhannes Pálsson sem bjuggu í Garði á Skagaströnd og Láru Kristjánsdóttur og Lárus G. Guðmundsson sem bjuggu á Vindhæli í Skagabyggð og síðar á Skagaströnd. Stofnfé sjóðsins er 50 milljónir króna og er hér formlega greint frá tilvist hans.

Tilgangur sjóðsins er að efla og styrkja menningar- og listalíf í Sveitarfélaginu Skagaströnd og í Skagabyggð í víðtækri merkingu þessara orða. Jafnframt er heimilt að greiða styrki til þeirra sem verða fyrir slysum eða alvarlegum veikindum og þarfnast aðstoðar.

Ástæða stofnunar sjóðsins er sú að ég hef átt mitt dagsverk í þessari byggð og þykir vænt um hana. Hér hefur mér vegnað vel og vil því gjarnan láta samborgara mína njóta í nokkru góðs af afrakstri starfa minna.

Í stjórn sjóðsins eru börn mín þrjú, þau Stefán Ægir, Soffía og Erla María og er það í þeirra höndum að ákveða og sjá um úthlutanir úr sjóðnum en styrkir úr honum geta numið allt að 4-5 milljónum króna á hverju ári.

Ég vil hvetja einstaklinga og félög, sem hafa hugmyndir og áform sem falla að tilgangi framangreinds sjóðs, að hafa samband við stjórnendur hans með formlegri umsókn þar sem gerð er góð grein fyrir viðkomandi máli.

Gert er ráð fyrir að úthlutað verði úr sjóðnum þrisvar til fjórum sinnum á ári. Ekki verður um sérstakan umsóknarfrest að ræða heldur má senda inn umsóknir hvenær sem er og skulu þær berast til Soffíu Lárusdóttur, Tröllateig 24, 270 Mosfellsbæ.

Nú er lag til að láta gamminn geysa og horfa til þess hvort ekki kunni að leynast ýmsar hugmyndir varðandi viðburði sem gaman væri að hrinda í framkvæmd fljótlega, sem og á næstu misserum og árum.

Bestu kveðjur,

Lárus Ægir Guðmundsson