65 ára gamlar þrær heyra brátt sögunni til

Nú er verið að rífa gömlu síldarþrærnar við höfnina. Hverfur þá eitt af minnismerkjunum um síldarvinnslu á Skagaströnd. Þrærnar eru rammgerðar og mikil vinna að brjóta í sundur steypuna og klippa járnin. Vel var vandað til verks er hafist var handa við byggingar þeirra haustið 1945. Sagan er áhugaverð rétt eins og hún birtist lesendum í bókinni Byggðinn undir Borginni. Í henni segir m.a.:

Þegar hafnargerð hófst á Skagaströnd fór stjórn Síldarverksmiðja ríkisins þess á leit við Áka Jakobsson, atvinnumálaráðherra, að fá leyfi til að hefja byggingu nýrra verksmiðja á Siglufirði og Skagaströnd. Var stefnt að því að verksmiðjurnar yrðu tilbúnar til vinnslu fyrir síldarvertíð 1946. Þetta samþykkti Alþingi í lok febrúar árið 1945.

Skagaströnd óskabarn ríkisstjórnarinnar
Stjórn síldaverksmiðjanna þótti bygging nýju verksmiðjanna á Siglufirði og Skagaströnd skammt á veg komnar í mars árið 1946 og taldi ólíklegt að þær yrðu báðar tilbúnar fyrir vertíðina. Vildi hún að hætt yrði við verksmiðjuna á Skagaströnd í bili eða hægt á þeim. 

Atvinnumálaráðherra féllst ekki á þetta enda taldi byggingarnefnd ekki útséð um að koma mætti báðum verksmiðjunum í gang fyrir sumarið. Skagaströnd var orðin óskabarn stjórnarinnar og hefur ráðherranum því verið sárt um að stöðva þar framkvæmdir. 

Þá má benda á að á vertíðinni 1945 veiddust í Húnaflóa um 43% þeirrar síldar sem Síldarverksmiðjur ríkins fengu til vinnslu. Hvatti það einnig til að verksmiðjan við Flóann kæmist í gagnið.

Verksmiðjan var tilbúin í lok ágústmánaðar og alls vann hún tæplega sjö þúsund mál þetta fyrsta starfsár en afkastagetan var um átta þúsund mál á sólarhring. Um veturinn og vorið 1947 var unnið áfram að því að fullgera nýju verksmiðjurnar. 

Hrunið
Byggingakostnaðurinn fór langt fram úr áætlun og var ríkisstjórnin mikið gagnrýnd fyrir það. Fór þá heldur að grynnka á eftirlæti stjórnvalda við síldariðnaðinn. Kom hér og fleira til. Síldarvertíðin 1945 var ein sú slakasta um árabil og sú lélegasta frá því Síldarverksmiðjur ríkisins tóku til starfa árið 1930. 

Það kom þó brátt á daginn að aflatregðan 1945 markaði upphaf hrun veiða Norðurlandssíldarinnar. Örlögin höguðu málum svo að framkvæmdir við nýju verksmiðjuna á Skagaströnd hófust á sama tíma og síldin ákvað að leita á nýjar slóðir.

Ekki er að efa að við þessi tíðindi varð mörgum Skagstendingnum hugsað til sögusagnar, sem gekk í kauptúninu nokkrum árum áður. Hafsteinn Sigurbjarnarson segir eftirfarandi í æviminningum sínum:

„Samtímis verksmiðjubyggingunni heyrðust sprengidrunur í hamrabelti, sem kauptúnið ber nafn af. Grjótið var stöðugt flutt í uppfyllingu og hafnargarð, sem byrjað var að gera suður við Hrafná, því nú átti í hvelli að gera stóra hafskipahöfn. Í kauptúninu var gráhærður öldungur, sem spáði því, að huldufólkið myndi sjá um það, að ekki yrði unnið til lengdar við grjótnámið, og ekki framar sjást síldarbranda í Húnaflóa.“

Sú trú, að huldufólksbyggðir væru í Höfðanum, var mjög sterk á þessum árum og í huga margra var enginn efi um hverju kenna ætti síldarleysið. Verksmiðjan á Skagaströnd starfaði aldrei á fullum „dampi“. 

Með hruni veiða Norðurlandssíldarinnar var brostinn sá grunnur öll nýsköpun á Skagaströnd hvíldi á. Innan tíðar varð ljóst að draumurinn um síldarútvegsbæinn sem átti að vera fyrirmynd annarra bæja, myndi aldrei rætast. Enn í dag gnæfir verksmiðjustrompurinn yfir bæinn eins og risavaxinn minnisvarði um þessa stóru drauma.

Úr bókinni Byggðin undir Borginni, Saga Skagastrandar og Höfðahrepps.