Aðgerðir til að bæta nemendum upp kennslutap vegna verkfalls

Eins og öllum er í fersku minni féllu niður rúmlega 30 kennsludagar í haust vegna verkfalls. Á fundi skólanefndar Höfðaskóla, 12. desember sl., var skipuð fjögurra manna nefnd til að koma með tillögur til sveitarstjórnar um úrbætur vegna þessa. Í nefndinni sátu skólastjóri, formaður skólanefndar og fulltrúar foreldraráðs og kennara. Voru þær tillögur sendar hreppsnefnd í árslok. Á fundi hreppsnefndar Höfðahrepps, þann 11. janúar sl., var samþykkt að veita skólastjóra Höfðaskóla heimild til að ráðstafa allt að 500 þús. kr. til að bæta nemendum elstu bekkjanna upp kennslutap vegna verkfallsins í haust. Einnig var lögð áhersla á að nýta alla daga sem best til kennslu. Á grundvelli þessarar samþykktar og og með hliðsjón af tillögum nefndarinnar hafa eftirfarandi ráðstafanir verið gerðar:  Prófdögum í annarlok, í febrúar og maí, og útivistardögum í maílok hefur verið fækkað og verður almenn kennsla í stað þess.  Æfingar fyrir árshátíð verða að hluta til utan hefðbundins kennslutíma, þ.e.a.s. færast aftar á daginn.  Kennsla verður 29. mars í stað starfsdags kennara.  Kenndir verða sex aukadagar í 10. bekk og 3 aukadagar verða í 8. og 9. bekk. Þar verða samræmdu-prófs greinarnar í forgrunni. Þessi kennsla fer fram á laugardögum og öðrum frídögum í apríl og maí Með þessum og öðrum aðgerðum hafa bæst við frá fjórum og upp í fjórtán dagar í kennslu þar sem áherslan er fyrst og fremst lögð á bóklegar greinar. Mestur ávinningurinn er á unglingastiginu. Er þess vænst að þessar aðgerðir vegi að hluta upp á móti því kennslutapi sem varð í haust.