Ætla að fjölga íbúðum á Skagaströnd

Sveitarfélagið Skagaströnd og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafa gert með sér viljayfirlýsingu um samstarf þess efnis að leita leiða til að fjölga íbúðum og efla stafræna stjórnsýslu á Skagaströnd.

Lítið hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði á Skagaströnd en einungis hefur fjölgað um eina íbúð síðastliðinn áratug þegar byggt var einbýlishús og er íbúðaskortur farinn að hafa veruleg áhrif. Í núgildandi húsnæðisáætlun sveitarfélagsins kemur meðal annars fram að skortur á íbúðarhúsnæði komi í veg fyrir eðlilega framþróun sveitarfélagsins. Ungt fólk sem vilji snúa aftur heim að loknu námi eða nýir íbúar sem vilja sækja atvinnu hafa ekki um mikið að velja. Skortur á húsnæði hamli fjölgun íbúa í sveitarfélaginu þar sem lítið og stundum ekkert íbúðarhúsnæði standi til boða.

Alexandra Jóhannesdóttir sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagastrandar: „Það er veigamikill þáttur í uppbyggingu á atvinnu í sveitarfélaginu og auknum umsvifum í ferðaþjónustu að til staðar sé hentugt húsnæði fyrir aðila sem vilja setjast að á Skagaströnd. Sveitarfélagið fagnar þessu framfaraskrefi sem felst í samstarfi við HMS og vonast til þess að það verði gjöfult til framtíðar þegar kemur að nýbyggingum á fasteignum á Skagaströnd.“

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að markmið samstarfsins sé að fjölga íbúðum í sveitarfélaginu þá meðal annars með því að nýta þau úrræði sem HMS hefur úr að ráða og auglýsa eftir byggingaraðilum sem vilja taka þátt í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Ásamt þessu komi sveitarfélagið og HMS til með að vinna að eflingu stafrænnar stjórnsýslu í sveitarfélaginu meðal annars með útgáfu á stafrænni húsnæðisáætlun, markvissri notkun mannvirkjaskrár HMS auk þess að undirbúningur hefjist við skráningu leigusamninga á svæðinu í húsnæðisgrunn HMS.

Viljayfirlýsingin er hluti af verkefninu Tryggð byggð sem er samstarfsvettvangur um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. Með verkefninu Tryggð byggð er verið að bæta aðgengi að upplýsingum og kynna uppbyggingaverkefni sem eru í gangi eða hefur verið lokið við. Jafnframt kynna þau verkfæri sem bjóðast hjá hinu opinbera svo sem stofnframlög, lánveitingar og fleira sem hafa þann tilgang að stuðla að íbúðaruppbyggingu samræmi við íbúðaþörf á landsbyggðinni. Markmiðið með Tryggð byggð er að tryggja aðgengi að íbúðarhúsnæði við hæfi óháð búsetu. Meira um samstarfsvettvanginn má finna á heimasíðu verkefnisins Tryggðbyggð.is.

Frétt HMS má nálgast hér.