Af snjómokstri og veðurhorfum.

Eftir hvassviðri síðastliðinnar nætur eru miklir skaflar komnir og víða orðinn svo mikill snjór að ekki verður átt við mokstur á nokkrum götum fyrr en veðurhorfur eru orðnar betri en lítur út fyrir næsta sólarhring. Meðfylgjandi mynd er tekin af spákorti www.belgingur.is og ber nokkuð saman við spár www.vedur.is . Samkvæmt þessum spám má reikna með norðaustan hvössum vindi og skafrenningi en einnig nokkurri úrkomu í kvöld og nótt og fram á morgundaginn.

Veðurspá gildir miðvikudaginn 21. nóvember 2012 kl 21:00

Sveitarfélagið hefur ákveðnar reglur um hvaða götur hafa forgang um opnun. Er þar um að ræða helstu þjónustu- og öryggisleiðir.

Í forgangsröð eru eftirtaldar leiðir:

·         Oddagata frá Vallarbraut að Fellsbraut og hreinsað frá dyrum slökkvistöðvar og RKÍ húsi fyrir sjúkrabíl

·         Fellsbraut frá efsta húsi að gatnamótum Oddagötu.

·         Oddagata og Strandgata öll. (Við mestu snjóa, hjáleið við Hafnarhús og meðfram Mjölskemmu)

·         Norðurbraut frá Fellsbraut að gatnamótum við Bogabraut

·         Gata upp að leikskóla og Ægisgrund að Dvalar og hjúkrunarheimilinu Sæborg.

·         Bogabraut frá Oddagötu að gatnamótum Norðurbrautar

Aðrar götur eru svo opnaðar og hreinsaðar eftir því hvernig snjóa leggur og hvernig snjómokstur vinnst en leitast við að „gera fært“ eftir þeim þannig að sem flestir komist leiðar sinnar þar til mögulegt verður að „hreinsa“ þær.

 

Tekið skal fram að við veðuraðstæður eins og nú eru getur fyrrgreind forgangsröð að einhverju leyti raskast og reikna má með að einungis hluti þessara leiða haldist opin yfir daginn.

Á óveðursdögum verður reynt að halda opnu fram til kl 17 en sá fyrirvari hafður að mokstri verður hætt ef hann er tilgangslaus vegna dimmviðris og þess að snjór sest í jafnóðum.

 

Fólk er eindregið hvatt til að vera ekki á ferð að nauðsynjalausu.

 

Sveitarstjóri