Ágrip af sögu Spákonufells- og Hólaneskirkna 1300 – 2012

 Út er komin bókin – Ágrip af sögu Spákonufells- og Hólaneskirkna 1300 – 2012.

Kirkja stóð á Spákonufelli a.m.k. frá því um 1300 og fram til 1928 er ný kirkja var vígð á Hólanesi.

Í bókinni er fjallað vítt og breitt um málefni kirkju og safnaðar á Skagaströnd og víðar og greint nokkuð frá því hvernig mál gengu fyrir sig á öldum áður.Jafnframt er tímanum fylgt allt til dagsins í dag og sagt frá fjölmörgum þáttum sem snertu viðfangsefni presta og safnaðar á hverjum tíma.

Í bókinni má m.a. finna upplýsingar um: hvaða prestar þjónuðu kirkjunum; hverjir sátu í sóknarnefndum; fyrstu konuna í sóknarnefnd; starfsemi kirkjukórsins; kirkjubyggingar; skrá um gjafir til kirkjunnar; breytingar á prestakallinu; ýmislegt um kirkjugarðinn; frásagnir af galdramálum sem og söguna að baki Lucinduvarðans og margt fleira. Í bókinni eru um 90 ljósmyndir.

Lárus Ægir Guðmundsson á Skagaströnd tók saman og skráði fyrrgreindar upplýsingar og gefur hann jafnframt bókina út. Útgáfan er styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra.