Allir velkomnir á fyrirlestradaga

 

Fyrirlestradagar á Skagaströnd

verða laugardagana 12. og 19. september í Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra í samvinnu við Rannsóknastofu í jafnréttisfræðum.

Fyrirlestrarnir verða í Bókasafni Halldórs Bjarnasonar,

Gamla kaupfélagshúsinu, Einbúastíg 2 á Skagaströnd.

Laugardaginn 12. september, kl. 14-15:

Annadís Greta Rúdolfsdóttir, lektor í aðferðafræði rannsókna við Háskóla Íslands, flytur fyrirlesturinn Óþekk(t)ar ömmur

 

Gerð er grein fyrir ævi nútímakvennanna Fanneyjar Bjarnadóttur (1913-2008) og Svövu Sigurðardóttur (1914-2012). Báðar voru fæddar utan hjónabands og voru lágt settar í stigskiptu kerfi samfélagsins. Þær gegndu hlutverkum móður og eiginkonu en voru einnig kynverur og neytendur samtímamenn­ingar.  Lífshlaup þeirra er sett í samhengi við hefðbundna hugmynda­fræði um hina „góðu móður” og hvernig þær hugmyndir hafa haft áhrif á afstöðu afkomenda til þeirra og þær minningar sem lifa um þær.

 

Ruth J. Arelíusdóttir, Sandra B. Rúdólfsdóttir, Fanney Bjarnadóttir,

Annadís Greta Rúdólfsdóttir, Svava Sigurðardóttir. Mynd frá 1984.

 

Laugardaginn 19. september, kl. 13:30-16:20 verða fluttir fjórir fyrirlestrar:

Páll Sigurðsson, prófessor emeritus, flytur erindið Tveir norðlenskir lögskýrendur – Lögbókarskýringar Páls lögmanns Vídalíns og Björns Jónssonar, bónda og fræðimanns á Skarðsá.

 Nanna Þorbjörg Lárusdóttir, sagnfræðingur, fjallar um Góðtemplarastúkurnar og áhrif mótandi orðræðu.

Vilhelm Vilhelmsson, sagnfræðingur, heldur erindið Að halda friðinn. Um sáttanefndir í Húnavatnssýslu  og störf þeirra á 19. öld.

Súsanna Margrét Gestsdóttir, sagnfræðingur, segir frá ömmu sinni í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna: Það var sól þann dag –  um Súsönnu Margréti Gunnarsdóttur frá Norðurfirði á Ströndum (1926-2002).

 

Umræður, heitt verður á könnunni og allir velkomnir


Háskóli Íslands