Allt að þrjátíu bátar leggja upp á Skagaströnd

Undafarið hefur verið líf og fjör í og við höfnina á Skagaströnd. Allt að þrjátíu bátar hafa lagt þar upp og er fjöldi strandveiðibáta þeirra á meðal. Aflinn hefur verið með ágætum að sögn sjómanna.

Seinni part dags koma bátarnir inn í röðum og er þá mikið að gera við löndun og vigtun. En menn gefa sér tíma til annarra verka en að draga þann gula. Árni Guðbjartsson í Vík bjargaði álku úti á miðjum Húnaflóa og var hún þakklát fyrir aðstoðina eins og greinilega má sjá á svip hennar. Raunar á blessuð álkan langt flug fyrir höndum þar sem heimkynni hennar er við vestanverðan Húnaflóa.