Ályktun um fækkun starfa við Landsbankann á Skagaströnd

 Sveitarstjórn Skagastrandar hefur mótmælt harðlega niðurskurði í útibúi Landsbankans á Skagaströnd við bankastjóra Landsbankans.

 Í ályktuninni segir að með uppsögn á einu og hálfu starfi í eina bankaútibúi Landsbankans í Austur - Húnavatnssýslu sem telur um 1.800 íbúa, sé höggvið í sama knérunn og í öðrum byggðum þar sem Landsbankinn segir upp starfsfólki í 11 útibúum víðsvegar um landið.

 

Í nafni hagræðingar sé störfum í litlum byggðum fórnað á forsendum þess að tæknivæðingin hafi leyst fólkið af hólmi. Það mótmæli því hins vegar enginn að þróun og framfarir breyti störfum og verkefnum en með sömu tæknivæðingu og þróun væri hægt að nýta starfsfólk þvert á alla búsetu þar sem þekking og reynsla starfsmanna er notuð á nýjum forsendum, á nýjan hátt. Í þessu hlutverki hafi Landsbankinn alfarið brugðist og virðist ætla að stefna sem flestu starfsfólki sínu saman í musteri sem stjórnendur bankans eru að reisa í miðborg Reykjavíkur, sjálfum sér til dýrðar. Kostnaðurinn við það musteri, sem hlaupi sennilega á tug milljarða, geri hagræðingu með uppsögn nokkurra starfsmanna á taxtalaunum næsta hjákátlega.

 

Sveitarstjórn Skagastrandar skori því á ríkisstjórn Íslands sem aðaleiganda bankans að taka stjórnarhætti og hugmyndafræði stjórnenda bankans til alvarlegrar skoðunar.