Ársreikningur sveitarsjóðs og stofnana 2017 afgreiddur í sveitarstjórn

Sveitarstjórn Skagastrandar afgreiddi ársreikning 2017 á fundi sínum 30. apríl 2018. 

Í ársreikningnum kemur fram að rekstrartekjur samstæðunnar voru 577,8 m.kr. en voru 559 m.kr. árið 2016 og hafa hækkað um 3,4% milli ára. Rekstrargjöld samstæðu námu 563,2 m.kr. en voru 551,2 m.kr. 2016 og höfðu aukist um tæp 2,2% milli ára. Rekstrarniðurstaða var jákvæð á árinu um 27,6 m.kr. í samanburði við 22,7 m.kr. jákvæða afkomu árið 2016. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar reyndist 23,6 m.kr. betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. 

Tekjur A-hluta voru 497,4 m.kr. og rekstargjöld án afskrifta námu 495,5 m.kr. Rekstur A hluta fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld var því jákvæður um 1,9 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta að teknu tilliti til fjármunatekna og afskrifta var jákvæð um 7,9 m.kr. 

Heildareignir sveitarfélagsins námu í árslok 1.742 m.kr. og eigið fé voru 1.274 m.kr. Langtímaskuldir sveitarfélagsins námu 246,7 m.kr. og tilheyra þær eingöngu félagslegum íbúðum. Veltufjárhlutfall samstæðunnar var 12,77 en var 14,59 í árslok 2016.
Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi var veltufé frá rekstri samstæðunnar 85,4 m.kr. og handbært fé frá rekstri nam 75,6 m.kr. Engin ný lán voru tekin á árinu. Handbært fé samstæðunnar nam 457,9 m.kr. í árslok auk 192,1 m.kr. skammtímaverðbréfaeignar en handbært fé var 539,8 m. kr. í árslok 2016 og þá nam skammtímaverðbréfaeign 124,5 m.kr. Fjárfestingar í varnlegum rekstrarfjármunum námu 73,8 m.kr. hjá samstæðu sveitarfélagsins.