Atvinnuuppbygging í A-Hún

 

Útgefin hefur verið greinargerð nefndar um atvinnumál í A-Hún.

Greinargerð þessi um atvinnuuppbyggingu í Austur-Húnavatnssýslu byggist á þingsályktun Alþingis frá 15. janúar 2014 um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar. Þingsályktunin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Markmiðið með átakinu er að efla samkeppnishæfni svæðisins og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.“

Á grundvelli ályktunarinnar var skipuð verkefnisstjórn með fulltrúum sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnsýslu og atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytis. Verkefnisstjórnin er þannig skipuð:

  • Arnar Þór Sævarsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, formaður verkefnisstjórnar,

  • Adolf H. Berndsen, oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar,

  • Dagný Rósa Úlfarsdóttir, varaoddviti Skagabyggðar,

  • Sigrún Hauksdóttir, varaoddviti Húnavatnshrepps,

  • Sveinn Þorgrímsson, yfirverkfræðingur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

    Greinargerðin er unnin af verkefnisstjórninni í samvinnu við Snorra Björn Sigurðsson, starfsmann Byggðastofnunar og Ingiberg Guðmundsson, starfsmann Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Tilgangur greinargerðarinnar er að gefa yfirlit um stöðu atvinnumála og mannlífs í Austur-Húnavatnssýslu, tengsl þess við raforkuframleiðslu í héraðinu og draga ályktanir sem nýst geta til að efla atvinnu og styrkja byggðina. Greinargerðin gegnir einnig því hlutverki að hafa tiltækar grunnupplýsingar sem nýst geta við gerð kynningarefnis fyrir fjárfesta og aðra þá sem stofna vilja til atvinnureksturs í héraðinu.

    Meginniðurstaða greinargerðarinnar er að fyrirhuguð stækkun Blönduvirkjunar skapar góðar forsendur fyrir nýtingu orku frá virkjuninni í þágu atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu. Hagnýting orku í heimahéraði hefur verið viðurkennd meginregla í samskiptum heimamanna og virkjunaraðila seinasta aldarfjórðung. Því verður að telja eðlilegt að öll orka Blönduvirkjunar nýtist í þágu heimamanna.

Austur-Húnavatnssýsla er vel í sveit sett og getur boðið fjárfestum kjöraðstæður fyrir atvinnustarfsemi í góðu umhverfi utan virka eldfjallasvæðisins í hæfilegri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og Akureyri.

Greinargerðina má finna hér