Auglýsing um skráningu katta

Sveitarstjórn Skagastrandar hefur samþykkt reglugerð um kattahald sem Umhverfisráðuneytið hefur staðfest

Í reglugerðinni segir m.a.:

Sveitarstjórn er heimilt að veita lögráða einstaklingum, sem búa í sveitarfélaginu leyfi til kattahalds með ákveðnum skilyrðum. Leyfið er bundið við nafn og heimilisfang viðkomandi og er ekki framseljanlegt. Leyfið er einnig bundið við þann kött sem það er gefið út fyrir. 

Allir heimiliskettir á Skagaströnd skulu skráðir á skrifstofu sveitarfélagsins gegn greiðslu skráningargjalds og þar fá eigendur heimiliskatta afhenta númeraða plötu með skráningarnúmeri kattarins, sem alltaf skal vera í ól um háls dýrsins. 

Óheimilt er að láta kött, eldri en 3ja mánaða, dvelja lengur en einn mánuð á heimili án þess að sótt sé um leyfi fyrir hann.
Ekki er leyfilegt að hafa fleiri en þrjá ketti eldri en þriggja mánaða á sama heimilinu.
Umsókn um leyfi til kattahalds skal skila inn á skrifstofu sveitarfélagsins á þar til gerðum eyðublöðum. Með undirritun umsóknar skuldbindur umsækjandi sig til að hlíta í einu og öllu fyrirmælum samþykktar um kattahald. Sveitarstjóri eða fulltrúi hans synjar eða gefur út umbeðið leyfi.“ 
Gjaldskrá fyrir kattahald hefur sömuleiðis verið ákveðin og er árlegt leyfi til kattahalds 1.500 kr. en aukagjald fyrir týnt merki 1.000 kr.

Framangreind ákvæði um kattahald hafa þegar tekið gildi og því er skorað á kattaeigendur að skrá ketti sína hið fyrsta og merkja þá með sérstökum merkjum sem afhent eru við skráningu

Sömuleiðis eru hundaeigendur áminntir um skráningu séu hundar þeirra ekki þegar á skrá.

Reglulega þarf að ganga í að eyða villiköttum. Til að tryggja að heimiliskettir séu ekki teknir í misgripum þarf að merkja þá að öðrum kosti gætu þeir verið álitnir villikettir og meðhöndlaðir sem slíkir. 

Skagaströnd 16. september 2009

Fyrir hönd sveitarstjórnar

Sveitarstjóri