Auglýsing um úthlutun byggðakvóta

Auglýsing um byggðakvóta.

Hreppsnefnd Höfðahrepps auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur samþykkt að veita 140 þorskígildislestum til úthlutunar í Höfðahreppi.

Eftirfarandi reglur gilda um úthlutun aflaheimilda sem koma í hlut Höfðahrepps:

1. Úthlutuðum veiðiheimildum verði skipt eingöngu milli þeirra útgerðaraðila sem áttu lögheimili á Skagaströnd 1. desember 2004 og eiga skip með veiðileyfi,

skráð 1. september 2005. Jafnframt er gert að skilyrði að 2/3 hlutar áhafnar skips sem sótt er um fyrir eigi lögheimili á Skagaströnd.

2. Miðað skal við að stærð fiskiskipa sem hljóta úthlutun sé takmörkuð við 250 brl.

3. Einungis verði úthlutað til þeirra sem leggja fram undirritaðan samning við samþykkta vinnslustöð á Skagaströnd um úrvinnslu aflans skv. úthlutuðum heimildum. Í samningnum skal tiltekið hvers konar úrvinnslu um er að ræða svo og yfirlýsing um að samkomulag sé um fiskverð.

Með vinnslustöð er átt við að umrædd fiskvinnsla taki við fiskinum, vinni hann á staðnum og breyti óunnu hráefni í vöru. Slæging á fiski eða einhverskonar framhaldsvinnsla á fiskafurðum sem hafa verið meðhöndlaðar annarsstaðar er ekki viðurkennt sem vinnslustöð til samninga um móttöku á byggðakvóta. Vinnslustöð skal og hafa rekjanlega ferla þar sem hægt er að sýna fram á að fiskur frá ákveðnum aðila hafi komið til vinnslu á ákveðnum tíma.

a) Viðkomandi útgerð skal skuldbinda sig til að leggja eitt tonn á móti hverjum tveimur sem úthlutað er af byggðakvóta til vinnslu á Skagaströnd.Við mat á hæfi umsækjanda skal tekið tillit til þess hvort viðkomandi hafi kvótastöðu til að uppfylla það skilyrði. Séu veiðiheimildir umsækjanda ekki nægar er heimilt að skerða úthlutun sem því nemur.

b) Við gerð samkomulags um löndun afla vegna byggðakvótans skal við það miðað að honum hafi verið landað samkvæmt samkomulaginu fyrir 1. sept. 2006. Jafnframt skal viðkomandi útgerð sýna fram á með óyggjandi hætti að staðið hafi verið við samkomulag um löndun byggðakvóta síðasta fiskveiðiárs ef slíkt samkomulag hefur verið gert. Hafi ekki verið staðið við löndun afla skv. samkomulagi um byggðakvóta síðasta fiskveiðiárs verður úthlutun skert sem því nemur. Komi til skerðingar skv. a) og b) skal þeim hluta kvótans úthlutað skv. 5. gr. reglna þessarra.

4. Við úthlutun veiðiheimildanna verði miðað við tvo flokka. Annars vegar þá sem hafa tapað veiðiheimildum vegna samdráttar í rækjuveiðum og hins vegar almenn úthlutun til útgerða báta með aflamark.Flokkarnir eru skilgreindir með eftirfarandi hætti:

a) Byggðakvóti til báta með leyfi til veiða á innfjarðarrækju í Húnaflóa. Kvóta sem nemur 100 þorskígildislestum verður úthlutað til þeirra sem hafa yfir að ráða heimildum til innfjarðarrækjuveiða enda uppfylli þeir skilyrði 1.- 3. gr. reglna þessara. Skal kvótanum skipt hlutfallslega eftir veiðiheimildum til innfjarðarrækjuveiða á Húnaflóa eins og þær voru 1999- 2000. Umræddum kvóta verði skipt milli þeirra útgerða sem stunduðu innfjarðarækjuveiðar á tímabilinu og enn gera út frá Skagaströnd.

b) Byggðakvóti til báta með aflamark.

Kvóta sem nemur 40 þorskígildislestum verður úthlutað til báta sem uppfylla skilyrði 1.-3 gr. reglna þessara og skal skipta framangreindum heimildum jafnt á milli hæfra umsækjenda.

5. Fyrir 15. júlí 2006 skulu útgerðir þeirra báta sem fengið hafa byggðakvóta gera sveitarstjórn skriflega grein fyrir því hvernig þeir muni nýta úthlutaðar aflaheimildir fyrir lok fiskveiðiárs. Geti hlutaðeigandi fyrirsjáanlega ekki fylgt reglum sveitarstjórnar skal hann afsala sér byggðakvótanum. Skal þeim kvóta endurúthlutað 1. ágúst, í þeim flokki sem kvóta var úthlutað í. Skal kvótanum úthlutað jafnt milli þeirra sem þegar hafa uppfyllt skilyrði um veiðar og vinnslu byggðakvótans.

6. Sækja skal um aflaheimildir samkvæmt reglum þessum til hreppsnefndar Höfðahrepps. Með undirritun umsóknar samþykkja viðkomandi aðilar þá skilmála sem reglurnar fela í sér.

Umsóknum skal skilað fyrir 10. janúar 2006, á skrifstofu Höfðahrepps á sérstökum eyðublöðum sem þar fást.

Hreppsnefnd Höfðahrepps