Ávarp forstjóra RARIK v/ Hitaveitudaga á Skagaströnd

 

Ég býð Skagstrendinga velkomna á hitaveitudaga á Skagaströnd. Eins og flestum er kunnugt var ákvörðun tekin um hitaveitu til Skagastrandar í lok síðasta árs. Aðdragandi þess var nokkuð langur eins og fram kom á kynningafundum 1. febrúar sl. og ástæðulaust að fjalla um hann hér.

Staðan í verkefninu er núna sú að verið er að leggja stofnæð frá Reykjum til Blönduóss og er sá áfangi á áætlun, en gert ráð fyrir að honum ljúki í haust. Dælustöð við Blönduós hefur verið byggð og verið er að undirbúa samning um frágang búnaðar í henni. Þverun á Blöndu er í skoðun í samstarfi við Blönduósbæ og Vegagerðina og samningar eru í farvatninu við landeigendur á milli Blönduóss og Skagastrandar. Þá er verið að ljúka við hönnun á dreifikerfinu á Skagaströnd.

Næsta vor hefst lagning stofnlagnar frá Blönduósi til Skagastrandar og er gert ráð fyrir að þeim áfanga ljúki þá um haustið. Á sama tíma verður hafist handa við lagningu dreifikerfisins á Skagaströnd, sem einnig er gert ráð fyrir að ljúki um haustið.

Íbúar munu því geta tengst veitunni haustið 2013, ef allar áætlanir ganga eftir.

Kostnaður íbúa er mismikill og ræðst af því hve miklu þarf að breyta innanhúss. Það verkefni er ekki á vegum RARIK, en hins vegar veitir ríkið stofnstyrki til nýrra hitaveitna sem að hluta til renna til íbúanna. Þegar ákveðið var að fara í veituna um síðustu áramót námu stofnstyrkir til nýrra hitaveitna 8 ára rafhitaniðurgreiðslum, en nú hefur lögum verið breytt og nema þeir nú 12 ára rafhitaniðurgreiðslum. Við hönnun og arðsemismat veitunnar var gert ráð fyrir stofnstyrk sem næmi 8 ára niðurgreiðslum og að 65% hans færi til veitunnar en 35% til íbúanna. Er það í samræmi við það sem almennt hefur tíðkast við stofnun nýrra hitaveitna.

RARIK hefur hins vegar ákveðið að vegna hærri stofnstyrks muni hann skiptist jafnt á milli íbúa og veitu. Það þýðir, ásamt breytingu á viðmiðun í 12 ár, að í stað þess að íbúar í þéttbýlinu fái að meðaltali um 250 þúsund kr. í stofnstyrk fá þeir nú að meðaltali um 550 þúsund kr. til að greiða tengigjald og til að breyta húsnæði sínu. Sú upphæð miðast við núverandi fjárveitingu í þennan málaflokk.

Tengigjald RARIK er skv. núverandi gjaldskrá um 250 þúsund fyrir venjulegt íbúðarhús í þéttbýli. RARIK fær til sín stofnstyrkinn þegar Orkustofnun hefur fengið staðfestingu á að viðkomandi hafi tengst hitaveitunni og sér um skiptingu hans milli íbúa og veitu. RARIK hefur ákveðið að bjóða upp á að fjármagna tengigjaldið fyrir þá sem njóta stofnstyrks, svo þeir þurfi ekki að leggja út fyrir tengigjaldinu á meðan beðið er eftir greiðslu á styrknum. Þegar hann berst fá íbúar í hendur mismun styrksins og tengigjaldsins, eða sem nemur að meðaltali um 300 þúsund kr. til almennra heimila í þéttbýlinu á Skagaströnd.

Á hitaveitudögum á Skagaströnd eru aðilar frá RARIK, Sveitarfélaginu, Orkustofnun, Landsbankanum og Fél­agi pípulagningameistara, auk þess sem bæði Danfoss og BYKO kynna vörur sínar. Allir þessir aðilar munu reyna að svara spurningum íbúa eins og kostur er. RARIK veitir upplýsingar um veituna og væntanleg áhrif á húshitunarkostnað, tengigjaldið, stöðu verkefnisins o.fl. Orkustofnun mun kynna reglur um stofnstyrki sem veittir eru til nýrra hitaveitna, hvenær og hvernig þeir er afhentir, auk þess að gefa upplýsingar um áætlaða up­phæð miðað við núverandi fjárveitingu.

Sveitarfélagið mun kynna þær skyldur sem byggingareglugerð setur á íbúa við breytinga á húsnæði og annað sem snýr að því. Fulltrúi Félags pípulagningameistara mun veita ráðgjöf og Landsbankinn mun kynna fjármögnunarmöguleika vegna breytinga á húsum. Þá munu Danfoss og Byko kynna vörur sínar

Ég vona að á þessum hitaveitudögum fái íbúar á Skagaströnd svör við þeim spurningum sem á þeim brenna vegna þessa mikla verkefnis í sveitarfélaginu og býð þá velkomna á hitaveitudaga.

Tryggvi Þór Haraldsson