Badmintonspilari verður skyndilega fimmtugur

Þróttmikill badmintonklúbburinn á Skagaströnd gaf einum félaga sinna skemmtilega fimmtugsafmælisgjöf síðasta mánudag. Klúbburinn hefur lengi verið mjög virkur, hittast félagar tvisvar í viku í íþróttahúsinu og reyna með sér.

 

Síðasta mánudag varð einn badmintonfélaginn skyndilega fimmtugur. Var það Adolf Berndsen, margir þekkja, en drengurinn hefur lengi verið búsettur hér í bæ - sumir segja frá fæðingu, aðrir lengur. Adolf þessi hefur alla tíð verið efnilegur í badminton. Hann tekur hvern leik mjög alvarlega, spilar ávallt til sigurs, sættir sig aldrei við jafntefli ... Hann leikur jafnan fullklæddur, brúkar síðbuxur, ermalanga skyrtu og elstu menn muna ekki eftir öðru en þessum sama svarta samkvæmisklæðnaði.

 

Leikur Adolfs byggist á stanslausri sókn. Gefur hann mótherjum sínum aldrei nokkurn grið og svo ákaft er leikið að hann bannar jafnan samherja sínum að eiga orðastað við andstæðingana - segir það trufla einbeitingu þeirra sem búa ekki yfir andlegri staðfestu og einbeitni.

 

Badmintonspilurum á Skagaströnd þykir ákaflega vænt um Adolf. Í tilefni afmælisins létu þeir hinn kunna teiknara Guðráð draga upp mynd. Hún hefur víðtæka skírskotun í fjölmörg og ólík hlutverk Adolfs í lífinu. Á henni má sjá golfkerru, fótbolta, sveitarfélagslurkinn, ránfugl íhaldsins, badmintonspaða, nokkur fyrirtækislógó og ekki síst hið undurfagra Spákonufell sem er í bakgrunn. Formóðir Adolfs er Þórdís spákona sem fjallið er kennt við. Hún nam land á Skagaströnd klukkan 14:39 þann 30. júní 975.

 

Meðfylgjandi er mynd af teikningunni. Einnig er mynd af þeim badmintonspilurum sem treystu sér til að taka þátt í mánudagsæfingunni. Adolf þekkist á því að hann er í svörtum samkvæmisfötum, stendur fyrir miðju og er með teikninguna góðu í höndunum. Smella má á myndirnar til að stækka þær.