Barokkhátíðin á Hólum að hefjast

 

Sjöunda Barokkhátíðin á Hólum að hefjast

Halla Steinunn Stefánsdóttir barokkfiðluleikari leiðir Barokksveit Hólastiftis

Á Barokkhátíðinni á Hólum dagana 25.-28. júní leiðir Halla Steinunn Stefánsdóttir barokk­fiðluleikari Barokksveit Hólastiftis. Jón Þorsteinsson kennir söng og Ingibjörg Björnsdóttir barokkdans. Fjallað verður um viola d‘Amore, tónskáldið Dieterich Buxtehude og lækningar á miðöldum, haldnir tvennir hádegistónleikar, kvartett ungra gítarleikara kemur fram og hápunkturinn er hátíðartónleikar Barokksveitar Hólastiftis í Hóladómkirkju kl. 14 á sunnu­dag. Aðgangur að öllum viðburðum hátíðarinnar er ókeypis en tekið er við frjálsum fram­lögum til stuðnings hátíðinni.

Dans- og hljómsveitaræfingar hefjast eftir hádegi  fimmtudaginn 25. júní ásamt söng­námskeiði en upphafsatriði Barokkhátíðarinnar á Hólum 2015 verður kl. 17 þegar hinn norsk-íslenski  Björgvin gítarkvartett heldur tónleika í Hóladómkirkju. Kvartettinn skipa þeir Öystein Magnús Gjerde, Thomas Schoofs Melheim, Morten Andre Larsen og Dag Håheim. Þeir eru allir á þrítugsaldri og hafa stundað nám við Grieg-akademíuna í Ósló. Þeir leika einleiksverk og kvartetta eftir Telemann, Bach, Soler, Haussmann og Vivaldi.  Klukkan átta um kvöldið flytja þeir Eyþór Ingi Jónsson og Pétur Halldórsson erindi um líf og verk dansk-þýska barokktónskáldsins Dieterichs Buxtehude í Auðunarstofu. Á eftir verður kvöld­ganga í Gvendarskál ef veður leyfir.

Föstudaginn 26. júní kl. 12.15 leikur Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari ásamt Judy Þor­bergs­son Tobin orgelleikara á hádegistónleikum í Hóladómkirkju. Þær flytja barokkverk fyrir selló eftir Duport og Magito en einnig gullfallega óþekkt sellósónötu eftir Antonio Vivaldi. Klukkan sautján verður mjög forvitnilegur fyrirlestur í Auðunarstofu þar sem Þórarinn Arnar Ólafsson læknir fjallar um heilsufar og lækningar á miðöldum. Um kvöldið koma þátttakendur saman á veitingastaðnum Undir Byrðunni þar sem barinn verður opinn og tækifæri fyrir fólk að troða upp með tónlistaratriði eða aðra skemmtun.

Hádegistónleikar laugardagsins hefjast einnig klukkan 12.15 og þar er á ferðinni Duo Borealis, skipað víóluleikurunum Önnu Hugadóttur og Annegret Mayer-Lindenberg. Þær flytja sjaldheyrða dúetta fyrir tvær víólur eftir Michel Corrette, Pietro Nardini og Jean-Marie LeClair. Annegret er jafnframt fiðlusmiður og klukkan sautján á laugardag fjallar hún um hið merka hljóðfæri  viola d‘Amore sem er af fjölskyldu strengjahljóðfæra eins og fiðlan og víólan og var mikið notað á barokktímanum.  Um kvöldið er hátíðarkvöldverður í sal Hólaskóla þar sem verður stiginn barokkdans , leikið á hljóðfæri og jafnvel sungið.

Sunnudaginn 28. júní lýkur Barokkhátíðinni á Hólum með hátíðarmessu í Hóladómkirkju kl. 11 og hátíðartónleikum Barokksveitar Hólastiftis kl. 14. Sr. Solveig Lára Guðmunds­dóttir, vígslubiskup á Hólum, prédikar og Sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup þjónar fyrir altari. Þátttakendur á Barokkhátíðinni á Hólum sjá um tónlistarflutning og organisti verður Eyþór Ingi Jónsson.  Á hátíðartónleikunum leiðir Halla Steinunn Stefáns­dóttir hljómsveitina sem flytur vel valdar barokkperlur sem sveitin hefur æft meðan á hátíðinni stóð.

Barokkhátíðin á Hólum er nú haldin í sjöunda sinn.

Nánari upplýsingar veitir Pétur Halldórsson
í síma 663-1842
eða á netfangið barokksmidjan@holar.is