Beggi og Signý í Drekktu betur á föstudagskvöldið

Hin vinsæla spurningakeppni Drekktu betur byrjar nú sitt þriðja leik- og skemmtiár. Sem fyrr fer hún fram í í Kántrýbæ og byrjar klukkan hálf tíu á föstudagskvöldið. 

Reglurnar eru afar einfaldar. Þetta er spurningakeppni en þó miklu frekar leikur og skemmtun. 

Tveir eiga að vera í liði, helst ekki fleiri því þá hallar á önnur lið. 

Þrjátíu spurningum er kastað fram, gert hlé eftir fimmtán, svo fólk eigi þess kost á að drekka betur ... vatn, kaffi, te, gos, bjór, léttvín eða annað sem hugurinn girnist. Þar er komið að nafni keppninnar, hún er ókeypis, þátttakendur drekka beinlínis upp í húsaleiguna ...

Vegleg verðlaun eru í boði hússins, sigurvegararnir fá bjórkassa. 

Ein af spurningunum er svokölluð bjórspurning. Þeir sem hafa hana rétta fá að launum eitt bjórglas eða álíka á barnum. Hins vegar er ekki gefið upp fyrirfram hver bjórspurningin er.

Það er hefð að spurt er einnar spurningar sem tengist Kántrýbæ, veitingastaðnum, útvarpinu eða Hallbirni. Þessi spurning er ekkert endilega bjórspurningin.

Að þessu sinni verða þau Signý Ósk Richter og Ingibergur Guðmundsson hæstráðendur í fyrstu leik vetrarins. 

Saman hafa þau samið spurningarnar, Signý verður spyrill en Ingibergur dómari, tímavörður og passar bjórinn ...

Þau segjast munu miða spurningarnar allar við Ísland, ekki neitt sérstakt, heldur verður tæpt svona almennt á mörgum atriðum. Mestu skiptir, að þeirra mati, að spurningarnar séu léttar og skemmtilegar.

Spurt verður til dæmis úr fréttum vikunnar, tónlist, kvikmyndum, landafræði, sögu, eitthvað um stjórnmál og svo framvegis.