Bílskúr og íbúðarhús í sama stíl - fúnkis

 

Það telst ekki til tíðinda að fólk byggi sér bílskúr við húsið. Hitt er líklega sjaldgæfara að fólk reyni að fella viðbyggingu að stíl íbúðarhússins. Eigendur og jafnframt íbúar að  Lækjarbakka við Strandgötu eiga svo sannarlega hrós skilið fyrir nýja bílskúrinn þó enn sé hann ekki fullkláraður. Hann virðist falla afar vel að íbúðarhúsinu og er hvort tveggja byggt í svokölluðum fúnkisstíl.

 

Fúnkis var upprunnin í Þýskalandi snemma á síðustu öld og setti svip sinn á byggingar þar í landi og miklu víðar. Stíllinn var nokkurs konar andstæða við skrautlegar byggingar sem lengi tíðkaðist að reisa. 

Notagildið varð mótvægið.

 

Til Íslands barst fúnkisstíllinn upp úr 1930. Í kreppunni miklu á fjórða áratugnum kom sér vel að geta byggt sem allra einföldust hús, en þrátt fyrir það varð hreinræktaður fúnkisstíll aldrei ráðandi stefna í byggingum hér.

 

Húsið Lækjarbakki var byggt árið 1946.

 

Meðfylgjandi myndir tók Sigurður Sigurðarson