BioPol ehf. á Skagaströnd og Selasetur Íslands á Hvammstanga skrifa undir samstarfssamning

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Selaseturs Íslands og BioPol ehf Sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd um rannsóknir á sviði sjávarlíffræði, og sjávarlíftækni með sérstakri áherslu m.t.t. líffræði og lifnaðarhátta sela.  

Selasetur Íslands og BioPol Sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd hafa ákveðið að leggja saman krafta sína hvað varðar rannsóknir er snúa að líffræði og lifnaðarháttum sela. Samstarfssamningur því til staðfestingar var undirritaður fimmtudaginn 7. febrúar.  

Meginmarkmið samningsins er að efla með rannsóknasamstarfi, þekkingu á sviði sjávarlíftækni og sjávarlíffræði með sérstakri áherslu á líffræði og lifnaðarhætti sela við strendur Íslands. Sérstaklega er í því ljósi horft til rannsókna á strandsvæðum við Húnaflóa.

Að undanförnu hafa BioPol ehf og Selasetur á Hvammstanga unnið að því að kanna möguleika fyrirtækjanna til samstarfs á sviði rannsókna. Markmið fyrirtækjanna er að skilgreina og fjármagna sameiginlega ný rannsóknaverkefni er snúa að líffræði og lifnaðarháttum sela. Í þessu sambandi verður horft til rannsóknasjóða bæði innanlands og erlendis.  

BioPol ehf. var stofnað í júlí 2007  og er markmiðið að stunda rannsóknir á lífríki sjávar, m.a. í Húnaflóa, rannsóknum í líftækni, nýsköpun og markaðssetningu á afurðum líftækni úr sjávarlífverum og fræðsla á þessum sviðum.

Selasetur Íslands var stofnað árið 2005 og hefur að markmiðið að draga saman og varðveita vitneskju um seli og önnur sjávarspendýr, veita fræðslu um seli og nánasta umhverfi hans og standa fyrir margvíslegum rannsóknum og fræðastarfi.  

Samstarfssamningurinn var undirritaður í Selasetrinu á Hvammstanga þann 7. febrúar síðastliðinn.   

Samninginn undirrituðu fyrir hönd Selaseturs, Pétur Jónsson framkvæmdastjóri, en fyrir BioPol ehf. Halldór G. Ólafsson  framkvæmdastjóri.

 

Frekari upplýsingar gefa:

Halldór Ólafsson

framkvæmdstjóri BioPol ehf

S. 452-2977, 896-7977

 

Pétur Jónsson

Framkvæmdastjóri Selaseturs

S: 451-2345, 898-5233