BioPol ehf. á Skagaströnd og Veiðimálastofnun skrifa undir samstarfssamning

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Veiðimálastofnunar og BioPol ehf Sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd um rannsóknir á sviði sjávarlíffræði, fiskavistfræði, auðlindanýtingar, sjávarlíftækni og tengdra sviða.

Veiðimálastofnun og BioPol Sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd hafa ákveðið að leggja saman krafta sína hvað varðar rannsóknir tengdar hafinu, auðlindum sjávar og ósasvæðum fallvatna. Samstarfssamningur því til staðfestingar var undirritaður mánudaginn 19. nóvember.  

Meginmarkmið samningsins er að efla með rannsóknasamstarfi, þekkingu og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, sjávarlíffræði, fiskavistfræði og auðlindanýtingar bæði ferskvatns og sjávarstofna. Sérstaklega er í því ljósi horft til rannsókna á strand- og ósasvæðum við Húnaflóa og í Skagafirði. 

Að undanförnu hafa BioPol ehf og Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar á Sauðárkróki ásamt Háskólanum á Akureyri verið að skilgreina og fjármagna sameiginlega ný rannsóknaverkefni. Rannsóknir á hrognkelsum og mikilvægi ósasvæða fyrir viðkomu fiskseiða í Húnaflóa og Skagafirði fara af stað nú í vor með sameiginlegri aðkomu allra þessara aðila.  

BioPol ehf. var stofnað í júlí á þessu ári og er markmiðið að stunda rannsóknir á lífríki sjávar, m.a. í Húnaflóa, rannsóknum í líftækni, nýsköpun og markaðssetningu á afurðum líftækni úr sjávarlífverum og fræðsla á þessum sviðum. Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar hefur haft aðsetur í Skagafirði frá 1984 og sinnt rannsóknum á lífríki í ám og vötnum ásamt ráðgjöf um nýtingu fiskistofna. Þá hefur deildin unnið að rannsóknum á lífríki ósasvæða vatnsfalla um land allt undanfarin ár þar sem mætast bæði ferskvatns og sjávartegundir. Eitt stærsta verkefnið á því sviði eru rannsóknir á landnámi og nýtingarmöguleikum nýrrar kolategundar við Ísland, ósakola, sem lifir bæði í sjó og fersku vatni.

Samstarfssamningurinn var undirritaður á skrifstofu BioPol ehf á Skagaströnd.  Viðstaddir voru starfsfólk Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar og stjórn BioPol ehf.

Samninginn undirrituðu fyrir hönd Veiðmálastofnunar, Sigurður Guðjónsson forstjóri og Bjarni Jónsson deildarstjóri Norðurlandsdeildar en fyrir BioPol ehf. Adolf H. Berndsen, stjórnarformaður, og Halldór G. Ólafsson  framkvæmdastjóri.

 

Frekari upplýsingar gefa:

Halldór Ólafsson

framkvæmdstjóri BioPol ehf

S. 452-2977, 8967977

 

Bjarni Jónsson

Deildarstjóri norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar

S: 580-6300, 8947479