Bjarmanes - Fellsborg - Tjaldsvæðið Höfðahólum - skólamáltíðir Höfðaskóla

Sveitarstjórn Skagastrandar ákvað á fundi sínum þann 18. febrúar sl. að auglýsa Fellsborg, Tjaldstæðið Höfðahólum og Bjarmanes til leigu ásamt því að auglýsa eftir aðilium til þess að sjá um skólamötuneyti Höfðaskóla.

Mögulegt er að óska eftir leigu á öllum þessum einingum, tveimur saman eða hverri fyrir sig.

Kaffi-og menningarhúsið Bjarmanes á Skagaströnd er fallegt steinhús, byggt 1913 en var allt endurbyggt 2004,og hefur þann einstaka anda sem einkennir mörg gömul hús. Það stendur miðsvæðis með góðu útsýni yfir höfnina og Húnaflóann.

Félagsheimilið Fellsborg var byggt árið 1965. Í húsinu eru 2 misstórir salir, sem nýttir hafa verið til skemmtanahalds, leiksýninga, ættarmóta, fatamarkaða og fl. Bókasafn Sveitarfélagsins er á neðri hæð sem og félagsstarf eldri borgara. Kvenfélagið Eining og UMF Fram hafa þar einnig aðstöðu. Við húsið er íþróttavöllur staðarins og einnig ágæt aðstaða fyrir tjöld og tjaldvagna sem hefur einkum verið nýtt í tengslum við ættarmót sem haldin eru í húsinu. Eldhús Fellsborgar var nýlega gert upp á glæsilegan máta. Framkvæmdir utandyra hófust á húsinu sl. sumar og munu þær klárast fyrir haustið.

Tjaldsvæðið í Höfðahólum er á skjólsælum og rólegum stað efst í byggðinni og horfir á móti sólu. Í miðju svæðisins er gamall bæjarhóll þar sem bærinn Höfðahólar stóðu. Svæðið er í fallegu umhverfi og nýtur skjóls til norðurs og austurs af lágum klettahólum sem kallaðir eru Hólaberg. 

Runnar skipta svæðinu upp í nokkra reiti sem skapa þægileg umhverfi fyrir tjöld, húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna. Rafmagnstenglar eru á nokkrum stöðum. Á svæðinu er góð aðstaða fyrir börn í spennandi náttúrlegu umhverfi. Í þjónustuhúsinu eru sturta, vatnssalerni, þvottavél og aðstaða til uppþvotta.

Umsóknum skal skilað á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar fyrir 17. apríl 2020 þar sem m.a. komi fram hugmyndir umsækjanda um rekstur hverrar einingar eða allra saman.

Umsóknum má einnig skila rafrænt á netfangið sveitarstjori@skagastrond.is. Öllum umsóknum verður svarað.

Frekari upplýsingar veitir sveitarstjóri í síma 455-2700 eða á netfanginu sveitarstjori@skagastrond.is