Björgunarskip draga dýpkunarpramma

 

Dýpkunarskip Hagtaks, Svavar, hefur lokið vinnu við dýpkun hafnarinnar. Samtals voru útgrafnir um 27 þús. m3 á tveimur dýpkunarsvæðum. Annars vegar var dýpkað vegna snúningsrýmis í höfninni þar sem gert er ráð fyrir að 100 m skip geti snúið innan hafnar. Hins vegar var dýpkað vegna fyrirhugaðrar lengingar Miðgarðs þar sem áætlað er að skapa aukið rými fyrir löndun smábáta.

Dýpkunarskipið var dregið áleiðis til Vopnafjarðar og mun björgunarskipið Húnabjörg draga það út á móts við Siglufjörð. Þar mun björgunarskipið Sigurvin taka við og draga austur á Öxarfjörð þar sem  enn verður skipt um dráttarskip því björgunarskipið Gunnbjörg á Raufarhöfn mun draga austur á móts við Skoruvíkurbjarg þar sem björgunarskip Vopnfirðinga, Sveinbjörn Sveinsson mun draga það síðasta spölinn. Heildarvegalengdin er um 220 mílur og því mun hvert björgunarskip taka um 50 mílur af drættinum.

Hér er um áhugavert samstarfsverkefni björgunarskipanna að ræða þar sem hver fyrir sig tekur að sér ákveðin hluta verkefnis en fer þó ekki það langt frá heimaslóð að öryggishlutverki skipsins sé stefnt í hættu.