Björgunarsveitin kemur færandi hendi í Höfðaskóla

Nemendur Höfðaskóla fengu í gær endurskinsmerki að gjöf frá Björgunarsveitinni Strönd. Það voru þeir Reynir Lýðsson, formaður Björgunarsveitarinnar og Bjarni Ottósson varaformaður sem heimsóttu skólann og afhentu merkin.

Vel var tekið á móti þeim félögum. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum virðist börnunum hafa litist vel á merkin sem voru margvísleg að lit og lögun. Sumir áttu þó erfitt með að velja og tóku sér langan tíma í að skoða enda ósköp eðlilegt að hver og einn vilji merki við sitt hæfi.

Einnig var farið í leikskólann og þar voru móttökurnar ekki síðri og vonandi fengu allir þar merki sem passar þeim.

Það er svo von Björgunarsveitarinnar að allir verði duglegir að nota nýju endurskinsmerkin. Mestu skiptir að vera sýnilegur í myrkrinu sem er ansi mikið þessa dagana þó sól fari nú hratt hækkandi á lofti.