Blómlegt félagsstarf aldraðra

Félagsstarf aldraðra á Skagaströnd er með miklum blóma og hefur verið svo í meira en fjórtán ár eða frá því til þess var stofnað.

Í hverri viku, á mánudögum og fimmtudögum, hittast allt að 26 manns á besta aldri og unir sér í góðum félagsskap við ýmiskonar handavinnu, spil og spjall. Á fimmtudögum koma til viðbótar fimm manns utan af Skaga og er þá haft fyrir satt að enn við að aukist skemmtunin að miklum mun.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í Fellsborg. Fyrir utan þá sem sátu við borð og spiluðu beindist athyglin að fjölbreyttu föndrinu sem fólkið var með í höndunum. Þarna var unnið að ýmsu, jafnvel jólagjöfum. Máluð voru jólatré úr keramík, listaverk prjónuð og ýmislegt fleira.