Börnin björguðu “horaða” Jólatrénu

Það er fastur liður í jólahaldinu á Skagaströnd að kveikja á jólatré á svonefndu Hnappstaðatúni í miðbænum. Í ár kom úr Kjarnaskógi frekar lítið og rýrt jólatré og var það sett upp á sínum stað. Bæjarbúar létu óánægju sína strax í ljós við bæjaryfirvöld, um að jólatréð væri rýrt og vildu fá stærra tré. Sú rödd náði eyrum sveitarstjórnar sem brást hart við og útvegaði annað og veglegra jólatré sem enn er eftir að setja upp.

Þegar þessir atburðir spurðust út meðal æskunnar á Skagaströnd að fjarlægja ætti litla tréð brugðu börnin á það ráð að standa vörð um það. Þau Aldís Embla Björnsdóttir, 10 ára, og Egill Örn Ingibergsson, 9 ára, stóðu fyrir undirskriftasöfnun meðal krakkanna í skólanum og færðu oddvitanum Adolf H. Berndsen bænarskjalið.

 

Í bréfinu stóð: "Jólatré jólatré. Við vorkennum litla horaða jólatrénu og viljum ekki láta henda því, þess vegna langar okkur að láta færa það yfir á hinn helminginn á Hnappstaðatúni."

Að sögn Adolfs H. Berndsen mun verða orðið við óskum barnanna og litla horaða jólatréð fær að njóta jólanna í miðbænum, börnunum til ómældrar gleði. Heimild: Morgunblaðið