Börnin hlusta með andakt á jólasögurnar

Spákonuarfur hefur á aðventunni undanfarin tvö ár staðið fyrir jólastemningu og sögustund fyrir börn í Árnesi. Litla húsið fyllist af áhugasömum börnum sem sitja í stólum eða gólfi og sum standa en öll hlusta með andakt á jólasögurnar.

Síðasta miðvikudag var Árnes fullt af börnum. Inni var rökkur, aðeins kveikt á kertum og litlum rafljósum. Andrúmsloftið var eins og í gamla daga þegar skammdegið grúfði yfir og fólk skemmti hverju öðru. Skuggarnir urðu langir og sögurnar lifnuðu við og hver veit nema jólasveinarnir hafi legið á glugga og hlustað.

Næst verður jólastemning og sögustund í Árnesi miðvikudaginn 15. desember kl. 17 og það er verður sú síðasta fyrir þessi jól.