Brunahaninn hefur ekki forspárgildi

Veðurstofa Skagastrandar hefur verið í fríi síðustu klukkustundirnar og þess vegna er eiginlega logn á Skagaströnd. Engu að síður hefur brunahaninn færst úr stað eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi mynd. Hann á að vera 45 cm lengra til hægri en hann í raun er og bendir það til að niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave þann 9 apríl verði þjóðinni til mikillar hagsbóta. Ekki er af þessu hægt að draga neinar ályktanir um forspárgildi brunahanans enda hefur hann hingað til verið frekar staður.

Myndin var send af veðurskipinu Hallo sem statt er fyrir utan suðurströnd Ástralíu. Samkvæmt því er -0,6 gráðu frost á Skagaströnd. Suðrið sæla andar nú vindum þýðum, sem er um það bil 3 m/s og námundað í logn. Kviðir eru þandir en hviður eru í 4 m/s og má úr þessu gera ráð fyrir auknum vindgangi. Loftþrýstingur hefur staðnæmst við 1026 hPa.

Gera má ráð fyrir að frost minnki eða aukist um helgina og að öllum líkindum mun vindgangur aukast. Næst verða veðurfréttir fluttar í næsta hús.