Bubbi í Fellsborg - 1000 kossa nótt.

Bubbi Mortens hóf tónleikaferð sína, undir nafninu 1000 kossa nótt, í Fellsborg á Skagaströnd mánudaginn 15. september. Tónleikarnir voru ósviknir Bubba tónleikar. Hann mætti til leiks í góðu formi afslappaður en kraftmikill. Lögin sem hann kynnti af nýja diskinum "1000 kossa nótt" voru áhugaverð, kannski ekki bylting en góðir fulltrúar í lagasafni meistarans. Á tónleikunum tók hann auðvitað nokkur af gömlu góðu lögunum og skilaði þeim af sama krafti og áður. Stál og hnífur var enn merki hans þótt margt væri mýkra í bland. Á milli laga ræddi hann um lífið og tilveruna, flutti hvatningu um heilbrigt líferni, talaði um hvað við eigum frábært land og benti á nokkra veikleika í sínu eigin fari sem áheyrendur könnuðust greinilega við í eigin ranni. Tónleikarnir voru sem sagt mjög vel heppnaðir og sýndu að Bubbi er hvergi að gefa eftir sem tónlistarmaður nema síður sé. Áhorfendur fögnuðu honum ákaft í lok tónleikanna og tvíklöppuðu hann á svið. Sem sagt góðir tónleikar hjá Bubba.