Bústaður byggður á fjórum mánuðum

Hjá Trésmiðju Helga Gunnarssonar á Skagaströnd fæddist stór og fallegur bústaður í gær. Og ekki gerðist það án nokkurs undanfara en síðustu vikur hafa starfsmenn fyrirtækisins veriða að undirbúa smíðina innanhúss og í gær var hafist handa við að setja það saman.

Þetta er fallegt hús eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það er tvílyft, svefnloft er á efri hæðinni. Alls er það 66 fermetrar og þar að auki verönd, hluti hennar er yfirbyggður. Grunnflöturinn er 6x13,5 ferm.

Bústaðurinn er heilsárshús og verður flutt til Dalvíkur þar sem Trésmiðjan mun steypa grunn og síðan í byrjun júní verður það flutt á sinn stað.

Svo er bara að panta. Á fjórum mánuðum getur bústaður eins og þessi verið kominn á staðinn og allir glaðir.