Dægurlagakeppni í Sæluviku á Sauðárkróki

Sæluvikan, árleg lista- og menningarhátíð í Skagafirði verður haldin 1. til 7.maí nk. Meðal stærstu viðburða þetta árið verður dægurlagakeppni sem fram fer á Sauðárkróki, föstudaginn 6. maí. 

Keppnin er öllum opin og eru allir lagahöfundar landsins hvattir til að senda inn lög.  

Dómnefnd mun velja 10 lög sem keppa á úrslitakvöldinu um titillinn Sæluvikulagið 2011.
 
Dægurlagakeppni á sér áratuga langa hefð á Sauðárkróki og þá lengst af í tengslum við Sæluviku. Kvenfélag Sauðárkróks stóð lengst af fyrir keppninni, þeirri fyrstu árið 1956, en sigurlagið í þeirri keppni átti Eyþór Stefánsson, tónskáld og síðar heiðurborgari Sauðárkróks. 

Dægurlagakeppnin varð smátt og smátt að heilmiklum viðburði í bæjarlífinu og ýmis lög sem þar hafa komið fram hafa lifað.  Meðal sigurvegara í keppnum fyrri ára má nefna Geirmund Valtýsson sem hefur sigrað fjórum sinnum, fyrst á sjötta áratugnum og síðast árið 1996.  

Meðal annarra þekktra flytjenda sem komið hafa fram í keppninni á síðustu árum og sumir stigið þar sín fyrstu skref má nefna Hreindísi Ylfu Garðarsdóttur, Aðalheiði Ólafsdóttur, Regínu Ósk, Guðrúnu Gunnarsdóttur, Eyjólf Kristjánsson, Friðrik Ómar og marga fleiri.
 
Skilafrestur fyrir lög í keppnina er til 1. apríl.  Skila þarf „demoi“ af lagi og texta merkt Dægurlagakeppni á Sauðárkróki, Pósthólf 1, 550 Sauðárkrókur

Lag og texti skulu merkt með dulnefni og meðfylgjandi skal vera umslag merkt sama dulnefni sem inniheldur nafn lagahöfundar og textahöfundar.

Höfundar þeirra laga sem dómnefnd velur hafa þrjá vikur til að fullvinna lagið og skila því fullkláruðu.  

Glæsileg verðlaun verða veitt fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti.