Dagný spyrill í Drekktu betur

Í ellefta sinn verður spurningakeppnin Drekktu betur haldin á föstudaginn og verður leikurinn sem fyrr háður í Kántrýbæ og hefst hann  kl. 21:30.

Það er Dagný M. Sigmarsdóttir, borinn og barnfæddur Skagstrendingur, starfsmaður Spákonuarfs sem verður hæstráðandi til sjós og lands.

Gera má fastlega ráð fyrir því að hún spyrji eitthvað úr fornum sögum og þjóðsögum og líkur benda til að þar komi einkum hún Þórdís spákona við sögu.

Aftur á móti er hún Dadda ekki fædd í gær og hana kann því að gruna að við hin ætlum nú aldeilis að koma undirbúin til leiks. Er þá ekki betra að lesa nákvæmlega allt sem fyrirfinnst um Dísu spákonu? Eða spyr hún kannski ekkert um neitt sem tengist Spákonusetri og lætur sér duga veraldlegri mál, kvaðratrót, ljósár, þyngdarkraftinn á Mars, ljóstillífun og kjarnasamruna?

... úff. Það er þó bót í máli að þjónustan í Kántrýbæ er ágæt, bjórinn góður, kaffið fínt, rauða og hvíta vínið ljúffengt og kókið ku vera afar hressandi. Svo er líka alltaf gaman að hitta aðra og skemmta sér í góðra vina hóp eina kvöldstund.