Drekktu betur í Kántrýbæ

Nú byrjar þessi skemmtilega spurningakeppni í Kántrýbæ föstudagskvöldið 26. september næstkomandi, og verður framvegis hálfsmánaðarlega ef áhugi er fyrir hendi. Tilgangurinn er  fyrst og fremst að skemmta sér, spurningarnar eiga ekki að vera erfiðar, heldur fjölbreyttar og draga fram almenna þekkingu, síður sérhæfða.

Keppnin hefur verið haldin vikulega í mörg ár á skemmtistaðnum Grand Rokk í Reykjavík, á Langa Manga á Ísafirði, Café Riis á Hólmavík, Sjallanum á Akureyri og víðar.

Tveggja manna lið

Leikurinn fer þannig fram að keppt er í liðum og eru tveir í hverju liði. Að loknum spurningum er farið yfir svör og má óska eftir að spyrill lesi einstaka spurningar aftur. Liðin fara ekki yfir eigin svarblöð heldur er svarblöðunum safnað saman og þeim svo dreift aftur af handahófi.

Spyrillinn er dómari

Í leiknum er aldrei sami spyrillinn tvisvar í röð. Spyrillinn semur spurningarnar og er dómari og raunar alvaldur.

Hafi tvö eða fleiri lið jafnmörg rétt svör eftir 30 spurningar skal gripið til bráðabana. Þá er fyrst spurt 5 spurninga og reynt að knýja fram sigurvegara með flestum svörum réttum. Ef ekki fæst sigurlið úr þessum 5 spurningum skal spyrja 3 spurninga að auki. Ef ekki fást niðurstöður eftir það, skal spyrill spyrja spurninga, einnar og einnar í einu þar til úrslit fást.

Bjórspurning

Í hverri keppni er „bjórspurning“. Þau lið sem ná að svara þeirri spurningu rétt eiga þá inni tvo litla bjóra á barnum. Til að eiga möguleika á bjórkassanum sem er í verðlaun þarf sigurliðið að vera með 15 svör eða fleiri rétt.

Keppnisgjöld eru engin, en mælst til að keppendur kaupi á bjór á barnum, kaffi eða gosdrykki - þess vegna heitir keppnin „Drekktu betur“.

Spyrill í fyrsta skiptið verður Sigurður Sigurðarson, markaðsráðgjafi Sveitarfélagsins Skagastrandar. Ekki hefur verið ákveðið hver verður næsti spyrill en auðvitað eru allar tillögur vel þegnar.